Burgdorf enn á sigurbrautinni

Arnór Þór Gunnarsson og Rúnar Kárason eru á toppnum í …
Arnór Þór Gunnarsson og Rúnar Kárason eru á toppnum í Þýskalandi með liðum sínum, Arnór í næstefstu deild og Rúnar í efstu deild. mbl.is/Golli

Rúnar Kárason og samherjar hans í Hannover-Burgdorf héldu sínu striki í dag og sigruðu Magdeburg, 32:30, í þýsku 1. deildinni í handknattleik.

Frábær byrjun Burgdorf hefur komið á óvart og liðið trónir á toppi deildarinnar með fimm sigra í fimm fyrstu umferðunum, eða 10 stig. Rúnar skoraði 2 mörk í leiknum í dag.

Füchse Berlín er líka með fullt hús en lék aðeins þriðja leik sinn í dag þegar liðið vann nýliða Hüttenberg, undir stjórn Aðalsteins Eyjólfsonar, 30:28 á útivelli. Bjarki Már Elísson er ekki byrjaður að spila með Füchse á tímabilinu vegna meiðsla. Ragnar Jóhannsson skoraði eitt mark fyrir Hüttenberg sem er með eitt stig eftir fimm leiki en liðið kom á tveimur árum úr C-deild og upp í efstu deild með Aðalstein við stjórnvölinn.

Í B-deildinni eru Íslendingaliðin Bergischer og Balingen, sem féllu úr 1. deild í vor, í tveimur efstu sætunum eftir sigra í dag.

Bergischer vann Essen, 29:26, og hefur unnið alla fimm leik sína. Arnór Þór Gunnarsson gerði 4 mörk í leiknum í dag.

Balingen, undir stjórn Rúnars Sigtryggssonar, vann Elbflorenz, 27:20, og er með 8 stig eftir fimm leiki. Oddur Gretarsson skoraði 2 mörk fyrir Balingen en Sigtryggur Daði Rúnarsson ekkert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert