Elvar og Perla íþróttafólk Árborgar

Elvar Örn Jónsson og Perla Ruth Albertsdóttir með verðlaun sín.
Elvar Örn Jónsson og Perla Ruth Albertsdóttir með verðlaun sín. Ljósmynd/Guðmundur Karl

Handknattleiksfólkið Elvar Örn Jónsson og Perla Ruth Albertsdóttir úr Ungmennafélagi Selfoss voru kosin íþróttakarl og íþróttakona Árborgar árið 2018. Kjörinu var lýst á verðlaunahátíð íþrótta- og menningarnefndar Árborgar í sal FSu í gærkvöldi.

Perla Ruth var í lykilhlutverki hjá kvennaliði Selfoss í handbolta sem náði sínum besta árangri á síðasta tímabili og varð í 6. sæti Olísdeildarinnar. Henni hefur gengið vel á yfirstandandi tímabili og verið fjórum sinnum valin í lið umferðarinnar í fyrstu níu umferðunum. Hún er í 6. sæti yfir sterkustu leikmenn deildarinnar miðað við HB statz tölfræðina. Perla er orðin fastamaður í A-landsliðinu í handbolta og skilar ávallt miklu framlagi inni á vellinum.

Elvar Örn er sömuleiðis lykilmaður í karlaliði Selfoss í handbolta sem náði sínum besta árangri í sögunni á síðasta tímabili þegar liðið varð í 2. sæti í Olísdeildinni og féll úr leik í undanúrslitum Íslandsmótsins. Á yfirstandandi tímabili hefur Elvar verið valinn í lið umferðarinnar fjórum sinnum í fyrstu tíu umferðunum en Selfoss er í toppbaráttunni í deildinni. Hann lék mjög stórt hlutverk í Evrópuleikjum Selfoss í haust og hefur verið valinn í öll verkefni A-landsliðsins á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka