Gísla kippir í kynið

Alfreð Gíslason stjórnar Víkingaklappinu í Kiel í kvöld.
Alfreð Gíslason stjórnar Víkingaklappinu í Kiel í kvöld. Ljósmynd/Sascha Klahn

Þjóðverjar kunna að gleðjast á góðri stundu og í kvöld var slegið upp veislu á ráðhústorginu í Kiel. Þar fögnuðu bæjarbúar handboltaliði sínu THW Kiel. Íslendingarnir Alfreð Gíslason og Gísli Kristjánsson létu ekki sitt eftir liggja. 

THW Kiel er sigursælasta liðið í þýskum handknattleik. Þegar stór afrek hafa verið unnin lýkur keppnistímabilinu með því að bæjarbúar hylla sína menn á torginu. Er þetta ekki árlegur viðburður heldur einungis ef Kiel hefur orðið þýskur meistari eða unnið önnur afrek, til dæmis í Evrópukeppni.

Er þá komið fyrir stóru sviði og mannfjöldinn stillir sér upp fyrir framan. Auk þess er ýmislegt tínt til og voru sölubásar settir fram sem seldu pylsur, gos og bjór og jafnvel crepes að frönskum sið. Í Kiel eru menn orðnir vanir því sem þessu fylgir og voru tilbúnir með færanlega kamra sem dæmi. 

Í þetta skiptið sigraði THW Kiel bæði í EHF-bikarnum og þýsku bikarkeppninni og því gott tilefni til að fagna uppskerunni í lok keppnistímabilsins. 

Skemmtunin tókst afskaplega vel og gleðin var við völd. Skemmtikraftar hituðu upp í klukkutíma eða svo þar til leikmannahópur Kiel kom á staðinn. Alfreð Gíslason nýtur geysilega mikilla vinsælda í borginni og var ákaft fagnað af mannfjöldanum þegar leikmenn og þjálfarateymi liðsins stigu á svið. Alfreð ávarpaði samkomuna stuttlega. Hann dró sig fljótlega í hlé af sviðinu og lét leikmönnum eftir að halda athygli fjöldans og baða sig í sviðsljósinu.

Gísli Þorgeir Kristjánsson
Gísli Þorgeir Kristjánsson AFP

Gerðu þeir það með glæsibrag og tóku margir lagið. Það gerði til að mynda Hafnfirðingurinn snöggi Gísli Þorgeir Kristjánsson, sem var að ljúka sínu fyrsta tímabili hjá Kiel. Gísli lét sig ekki muna um að syngja John Denver-lagið Country Roads fyrir mannfjöldann. Gísli er barnabarn eins ástsælasta sviðslistamanns þjóðarinnar, Gunnars Eyjólfssonar, og ef til vill er hann með þetta í blóðinu. Hann átti í það minnsta ekki í vandræðum með að rúlla upp ameríska slagaranum eins og hann hefði aldrei gert annað. 

Sumir samherja hans sem spreyttu sig áttu ekki jafn auðvelt með sönglistina og óttast ég að dr. Arnar Eggert Thoroddsen, tónlistargagnrýnandi Morgunblaðsins, hefði ekki gefið þeim öllum háa einkunn. 

Þegar leikmenn höfðu átt sviðið í töluverða stund gerðu þeir boð eftir Alfreð sjálfum. Var kóngurinn í Kiel þá kallaður aftur á svið til þess að framkvæma víkingaklappið margfræga. Fórst Alfreð það vel úr hendi eins og við var að búast og Þjóðverjarnir höfðu gaman af. 

Fjölmiðlafulltrúi THW Kiel hafði orð á því við blaðamann mbl.is hversu skemmtilegt væri að Alfreð fengi að tengja við stuðningsmennina á ráðhústorginu nú þegar hann er á förum frá félaginu eftir frábært starf. Slíkt er ekki árlegur viðburður eins og áður segir og liðin eru fimm ár síðan síðast var slegið upp veislu sem þessari á ráðhústorginu í Kiel.

Alfreð á sviðinu á Ráðhústorginu í kvöld.
Alfreð á sviðinu á Ráðhústorginu í kvöld. Ljósmynd/Sascha Klahn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert