Samgleðst Alfreð innilega

Alfreð gat slegið á létta strengi á Ráðhústorginu í gærkvöldi …
Alfreð gat slegið á létta strengi á Ráðhústorginu í gærkvöldi enda keppnistímabilinu lokið. Á myndinni einnig sjá þýska landsliðsmanninn Patrick Wiencek og danska heims- og ólympíumeistarann Niklas Landin. Ljósmynd/Sascha Klahn

Tékkinn, Filip Jicha, sem nú tekur við stjórn THW Kiel sendir Alfreð Gíslasyni huggulega kveðju í samtali við mbl.is og segist sérstaklega ánægður með að Alfreð hafi náð að kveðja Kiel á þeim nótum sem hann á skilið. 

Mbl.is tók Jicha tali í gær að lokinni síðustu umferðinni í þýsku 1. deildinni. Kiel sigraði í EHF-bikarnum og þýsku bikarkeppninni auk þess að hafna í 2. sæti í deildinni, tveimur stigum á eftir Flensburg. 

„Erfitt verður að feta í fótspor Alfreðs Gíslasonar og annarra framúrskarandi þjálfara sem þjálfað hafa THW Kiel. Ég er virkilega ánægður með að ferli Alfreðs ljúki á þessum nótum sem það gerði hér í dag. Hann á það skilið eftir frábært starf en Alfreð hefur verið hér í ellefu ár og ég samgleðst honum innilega að hafa unnið tvo bikara á síðasta tímabilinu. Öll værum við enn ánægðari ef við hefðum unnið þýska meistaratitilinn en ef ég á að vera heiðarlegur þá á Flensburg skilið að vinna deildina í þetta skiptið í ljósi þess stöðugleika sem liðið sýndi,“ sagði Jicha sem nú færir sig úr starfi aðstoðarþjálfara yfir í þjálfarastarfið. 

„Ég mun ekki reyna að tileinka mér þjálfaraaðferðir Alfreðs að öllu leyti vegna þess að ef maður reynir slíkt þá verður maður alltaf einhvers konar b-útgáfa af viðkomandi. Ég hef mínar eigin hugmyndir. En að sjálfsögðu get ég lært margt af Alfreð og ýmislegt frá fleiri þjálfurum sem ég hafði á mínum leikmannaferli.“

Jicha segir að fjölskylda Alfreðs verði vafalaust ánægð nú þegar hann tekur sér frí frá íþróttinni. 

„Í dag og kvöld fagna leikmennirnir og Alfreð góðu tímabili. Er það fullkomið að Alfreð geti kvatt borgarbúa á Ráðhústorginu og við hinir stígum til hliðar á meðan. Við erum afskaplega ánægð fyrir hönd Alfreðs en einnig ánægð fyrir hönd fjölskyldunnar. Kara og aðrir fjölskyldumeðlimir fá nú að njóta fjölskyldu-Alfreðs í meiri mæli,“ sagði Tékkinn viðkunnalegi í gær en hann átti frábæran feril sem leikmaður með Kiel en lék einnig með Lemgo og Barcelona á sínum ferli. 

Filip Jicha í treyju THW Kiel.
Filip Jicha í treyju THW Kiel. Ljósmynd/thw-provinzial.de
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert