Rússar eru að spyrna sér frá botninum

Línumaðurinn Gleb Kalarash er 2,05 m á hæð og hér …
Línumaðurinn Gleb Kalarash er 2,05 m á hæð og hér skorar hann fyrir Rússa gegn Ungverjum. Kalarash mætir Íslandi í dag. AFP

Rússar, andstæðingar Íslendinga á Evrópumóti karla í Malmö í dag, byggja á gömlum merg í handboltanum. Þeir tóku við af ógnarsterku liði Sovétríkjanna á sínum tíma og viðhéldu arfleifð þeirra fram yfir aldamótin með því að halda sér í fremstu röð í heiminum en hafa undanfarinn áratug ekki blandað sér í toppbaráttuna á stórmótunum í íþróttunni.

Frá 2006 hafa Rússar ekki komist ofar en í 9. sætið á EM og botninum var náð þegar rússneska liðið komst ekki í lokakeppni EM í Króatíu árið 2018. Áður hafði rússneska liðið ekki komist á Ólympíuleikana 2012 eða 2016, og heldur ekki í lokakeppni HM árið 2011.

Lykilmennirnir brugðust

Rússar urðu að sætta sig við ósigur gegn Ungverjum, 25:26, í fyrstu umferðinni á laugardaginn. Eduard Koksharov, þjálfari liðsins og stórstjarna á árum áður, sagðist eftir leikinn vera mjög óhress með frammistöðu lykilmanna sinna og með markvörsluna, sem var nánast engin. Hinir óreyndu Dmitri Santalov og Sergei Kosorotov, sem báðir leika með Medvedi í Rússlandi, hefðu hinsvegar staðið sig vonum framar. Þeir eru báðir rétthentar skyttur. Santalov, sem var markahæstur Rússanna með fimm mörk, er 23 ára og Kosorotov, sem skoraði fjögur mörk, er aðeins tvítugur.

Dmitrii Zhitnikov leikur með Pick Szeged í Ungverjalandi.
Dmitrii Zhitnikov leikur með Pick Szeged í Ungverjalandi. AFP


Koksharov er sjálfur þjálfari norðurmakedónska stórveldisins Vardar Skopje og fimm leikmenn Rússa spila með Vardar. Þar á meðal þrír af reyndustu mönnum liðsins, Pavel Atman (32 ára), Sergei Gorbok (37 ára) og Timur Dibirov (36 ára). Línumaðurinn Gleb Kalarash, sem er engin smásmíði, 2,05 m á hæð, leikur líka með Vardar Skopje, sem og hinn 31 árs gamli hornamaður Daniil Shishkarev.

Enginn leikmanna Rússa leikur í vesturhluta Evrópu en einn af þeim reyndusti, leikstjórnandinn Dmitri Zhitnikov, er samherji Stefáns Rafns Sigurmannssonar hjá Pick Szeged í Ungverjalandi. Aðrir leika með félagsliðum í Rússlandi, Úkraínu og Hvíta-Rússlandi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka