Að vissu leyti gott að vita hvað gekk ekki nógu vel

Ýmir Örn Gíslason stóð vaktina vel að vanda.
Ýmir Örn Gíslason stóð vaktina vel að vanda. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér fannst þetta bara góður sigur og vinnum frekar örugglega en við vorum svolítið lengi í gang í fyrri hálfleik,“  sagði Ýmir Örn Gíslason varnarjaxl Íslands í handbolta eftir 39:24 sigur á Færeyjum í Laugardalshöllinni þegar fram fór fyrri vináttuleikur liðanna en hinn er á morgun. 

Þó Ýmir Örn væri sáttur með sigurinn vildi hann líka fá á hreint hvað þarf að bæta fyrir næsta leik.  „Við vorum einfaldlega ekki nógu góðir enda komust þeir yfir í fyrri hálfleik þegar við leystum hlutina ekki nóg vel, vorum aðeins að prufa fimm-einn vörn en það er að vissu leiti gott að það gekk ekki nógu, því þá vitum við hvað þarf að bæta.  Það er jákvætt, ef við horfum á það þannig.“

Sem fyrr segir er seinni vináttuleikurinn við Færeyjar á morgun, laugardag, í Laugardalshöllinni.  „Ég held að við þurfum að aðeins að laga varnarleikinn en líka aðeins sóknarleikinn og hlaupin upp völlinn.  Það þarf alltaf að slípa eitthvað til en mér finnst sóknarleikurinn og hraðaupphlaupin hjá okkur líta vel út líka svo ég held að þurfi helst að laga í varnarleiknum,  sérstaklega þegar við vorum að prófa nýja hluti en við erum þó komnir með eitthvað til að skoða og gera betur.“  

Um hvað snýst þá seinni leikurinn við Færeyjar? „Við þurfum þá að láta alla í liðinu spila og fá góðan leik, vinna aftur örugglega og sýna að við erum að þessu til að ná í sigra,“ sagði Ýmir Örn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert