Ánægður með einbeitinguna og huginn

Snorri Steinn á hliðarlínunni í kvöld.
Snorri Steinn á hliðarlínunni í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég ætla ekki að kvarta yfir þessum úrslitum, er bara glaður eftir góða frammistöðu leikmanna en sérstaklega ánægður hvað þeir voru einbeittir og hugur í mönnum, sem vildu vinna leikinn, við gátum rúllað liðinu, skipt mönnum inná og þeir stóðu sig vel sem er ánægjulegt fyrir þjálfara,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari íslenska handboltalandsliðsins í handbolta karla eftir 39:24 sigur á Færeyjum í vináttulandslandsleik í Laugardalshöllinni í kvöld.

Gerði þjálfarinn miklar breytingar á leik liðsins? „Maður þarf að alltaf að skoða og greina leikinn en það var stál í stál í byrjun, við erum svolítið að  tapa boltanum maður á mann.  Veit ekki hvort það var of langt á milli manna en það er jafnvel eitthvað sem við þurfum að fínpússa.  Svo var breiddin í liði Færeyjar ekki eins mikil og hjá okkur.  Þegar þeir fara svo að skipta mönnum inná göngum við á lagið en það sýnir líka gæði að nýta tækifærið þegar það gefst.  Við nýttum það og náðum góðu forskoti, sem við bara svo héldum og bættum í, það er bara glæsilegt.“

Hvað segir hann um seinni leik landanna á laugardaginn? „Við þurfum bara að halda áfram, út á það gengur þetta. Sigur í dag gefur ekki neitt og telur ekki en við finnum eitthvað sem við þurfum að laga.  Sumt gerum  vel og þá getum við bara gert ennþá betur.  Svo er hitt, að menn geti skrúfað sig niður og mætt svo kokhraustir í næsta leik og einbeittir og sýnt aftur góða frammistöðu.  Ég skynjaði það alla vikuna að það var hugur í mínum mönnum og einbeitingin góð á öllum æfingum svo þetta var eiginlega bara rökrétt í dag.  Menn eru að spila landsleik á Íslandi með fullt af fólki í húsinu og jafnvel enn fleiri á morgun.  Menn vilja sigur og það kemur ekkert á óvart,“ bætti þjálfarinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert