Forréttindi að upplifa þetta með konunni sinni og börnum

Valsmenn þakka fyrir stuðninginn á Hlíðarenda í kvöld.
Valsmenn þakka fyrir stuðninginn á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

„Þetta var æðislegt og nákvæmlega það sem við ætluðum okkur,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson, markvörður Vals, í samtali við mbl.is eftir stórsigur liðsins gegn Minaur Baia Mare frá Rúmeníu í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Evrópubikars karla í handknattleik á Hlíðarenda í kvöld.

Leiknum lauk með átta marka sigri Vals, 36:28, en síðari leikur liðanna fer fram í Rúmeníu eftir viku, sunnudaginn 28. apríl.

Þurftu að rúlla á liðinu

„Mér fannst orkustigið okkar mjög gott í þessum leik. Það var frábær stemning hérna á Hlíðarenda í kvöld og Evrópukvöld eins og þau gerast best. Við þurftum að rúlla vel á liðinu þar sem við eigum leik í miðri viku, ólíkt þeim, og það gekk vel upp fannst mér.

Þetta var mjög fallegur sigur og að vinna með átta mörkum er mjög mikilvægt því við erum að fara á mjög erfiðan útivöll. Við ætlum okkur sigur í þeim leik að sjálfsögðu og í úrslitin,“ sagði Björgvin Páll.

Kom heim fyrir þessi kvöld

Björgvin Páll átti stórleik í marki Vals og varði alls 18 skot, þar af eitt vítakast.

„Ég kom heim frekar snemma úr atvinnumennsku og ég var að koma heim fyrir þessu kvöld. Að fá að upplifa svona kvöld, með konunni minni og börnunum mínum fjórum, og vinum sínum líka eru forréttindi. Ég var með gæsahúð í kvöld og að geta gert svona flottan viðburð er mikil lyftistöng fyrir íslenskan handbolta,“ sagði Björgvin Páll í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka