Alexander Petersson: „Það er svo önnur spurning!“

Alexander Petersson.
Alexander Petersson. mbl.is/Óttar Geirsson

„Þetta var mjög vel útfærður leikur hjá okkur og við mættum tilbúnir til leiks,“ sagði Alexander Petersson, leikmaður Vals, í samtali við mbl.is eftir stórsigur liðsins gegn Minaur Baia Mare frá Rúmeníu í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Evrópubikars karla í handknattleik á Hlíðarenda í gær.

Leiknum lauk með átta marka sigri Vals, 36:28, en síðari leikur liðanna fer fram í Rúmeníu eftir viku, sunnudaginn 28. apríl.

Tilbúnir í átök

„Við gerðum það sem lagt var upp með og vorum tilbúnir í átök strax frá fyrstu mínútu. Ég er búinn að vera í þessu í einhver 25 ár og það er erfitt að hætta. Handbolti hefur verið lífið mitt í langan tíma og ég hef enn þá mjög gaman af þessu.

Við sjáum til hversu lengi maður endist í þessu en ég tók mér auðvitað árspásu og kannski hjálpar það manni en ég er alltaf að verða betri og betri finnst mér,“ sagði Alexander sem verður 44 ára gamall í sumar.

Stífur í nokkra daga

En hvernig er skrokkurinn eftir svona stórleiki?

„Það er svo önnur spurning! Það tekur lengri tíma að ná fullri endurheimt en þegar maður var yngri, ég skal alveg viðurkenna það. Maður er aðeins þungur og stífur í nokkra daga en svo er það bara næsti leikur og þá mætir maður klár í slaginn,“ sagði Alexander í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka