Hvetur stuðningsmenn KA til að styðja Þór

Kristinn Björgúlfsson og Halldór Örn Tryggvason á hliðarlínunni hjá Þór.
Kristinn Björgúlfsson og Halldór Örn Tryggvason á hliðarlínunni hjá Þór. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Þór mætir Fjölni í öðrum leik liðanna í úrslitaeinvíginu um sæti í úrvalsdeild karla í handbolta. 

Fjölnir vann fyrsta leikinn í Grafarvogi en þrjá sigra þarf til þess að tryggja sér sæti í deild þeirra bestu. 

Kristinn Björgúlfsson, fyrrverandi þjálfari ÍR, hefur verið í þjálfarateymi Þórs í undanförnum leikjum. Er hann þar til að aðstoða vin sinn Halldór Örn Tryggvason, þjálfara Þórs. 

Eitthvað betra en bæjarslagur?

Í samtali við Akureyri.is hvetur Kristinn stuðningsmenn erkifjendanna í KA til þess að mæta í höll Þórs í kvöld og styðja liðið áfram. 

Ég væri til í að sjá stuðningssveit KA manna í húsinu við hlið okkar manna, og styðja okkur. KA-menn geta með því verið að tryggja algjöra veislu á næsta ári. 

Er eitthvað betra en bæjarslagur á næsta ári? Gaman væri ef að menn kæmu til að undirbúa þá veislu. Ég er nokkuð viss um að allir á Akureyri séu til í það. Skora því á stuðningssveit KA að koma í Höllina í dag,“ sagði Kristinn. 

Þórasarinn Brynjar Hólm Grétarsson skýtur að marki Fjölnis í fyrsta …
Þórasarinn Brynjar Hólm Grétarsson skýtur að marki Fjölnis í fyrsta leik liðanna. Morgunblaðið/Óttar Geirsson

„Rígur milli félaga er mikilvægur og allir vilja geta rifið kjaft og haft montréttinn hjá sér. Talað um að bærinn sé rauður eða gulur og allt sem því fylgir. Ég bý í Hafnarfirði og fyrir leiki Hauka og FH kemst ekkert annað að í bænum.

Það hlýtur að vera eins á Akureyri. Þetta eru líka leikirnir sem allir fyrir sunnan fylgjast með. Alltaf troðfullt hús; hér mætti HSÍ líka reyna að leggja leikina upp þannig að bæjarslagur sé til dæmis síðasti leikur fyrir jól, páska eða annað til að búa til meiri stemningu,“ bætti Kristinn við í samtali við Akureyrarmiðilinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka