Það þarf ekkert kraftaverk

Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals ræðir við sína menn í …
Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals ræðir við sína menn í kvöld. mbl.is/Arnþór

Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals var svekktur með tap gegn Aftureldingu í háspennuleik á Varmá í kvöld. Valsmenn eru nú 1:0 undir í undanúrslitaviðureign liðanna en vinna þarf þrjá leiki til að komast í úrslitaeinvígið gegn FH eða ÍBV. Spurður út í frammistöðu Vals í leiknum sagði Óskar þetta:

„Afturelding var betri í byrjun. Varnarleikurinn hjá okkur var ágætur þegar leið á fyrri hálfleikinn en síðan var hann mjög góður í síðari hálfleik. Niðurstaðan er síðan bara sú að þetta féll hjá þeim í lokin,“ sagði hann við mbl.is.

Var það markvarslan sem réði úrslitum í kvöld?

„Það er kannski einfaldasta greiningin en samt ekki alveg því síðan var það þannig að ég var of lengi að leysa eitt leikkerfi sem hleypti þeim aftur inn í leikinn í lokin, sérstaklega í ljósi þess hvað vörnin var góð fram að því.

En eins og ég segi síðan féll þetta bara hjá þeim. Síðan finnst mér við eiga mikið inni hjá nokkrum leikmönnum. Við vorum bara alls ekki góðir á ýmsum sviðum."

Er niðurstaðan samt ekki sú að það sé hreinlega bara komin þreyta í lið Vals?

„Á meðan við erum allir heilir þá er ég rólegur. Auðvitað hefur þetta leikjaálag áhrif. Við viljum vinna alla leiki og vera alltaf á fullu en á endanum mun það segja til sín. Þetta er kúnst en mjög gaman á sama tíma að vera í þessu álagi."

Hvað þarf Valur að gera betur til að vinna Aftureldingu eftir viku?

„Það þarf ekkert kraftaverk. Við eigum marga leikmenn inni. Við vorum ekkert frábærir í sókninni. Við þurfum bara að tengja nokkra hluti betur og fleiri þurfa að stíga upp. Síðan þurfum við bara að ná upp okkar leik,“ sagði Óskar Bjarni að lokum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka