„Við lögðum mikið á okkur, vorum agaðir og skildum ekkert eftir," sagði kampakátur Borche Ilievski, þjálfari ÍR, í samtali við mbl.is eftir 83:79-sigur á Stjörnunni í kvöld. Með sigrinum tryggði ÍR sér sæti í úrslitum við KR, en ÍR vann einvígið 3:2.
„Þetta var mjög erfiður leikur og við lentum undir snemma í öðrum leikhluta en eftir það tókum við leikhlé, náðum að jafna og komast yfir, og við héldum forskotinu allt til loka.
Þetta er gríðarlega gott Stjörnulið. Þeir eru vel þjálfaðir og spila hraðan og góðan bolta á meðan við spilum gamaldags körfubolta frá Júgóslavíu og það tókst hjá okkur. Ég er ótrúlega glaður og við eigum skilið að vera í úrslitum."
ÍR náði 20 stiga forskoti snemma í seinni hálfleik, en þrátt fyrir það var Ilievski órólegur á hliðarlínunni, enda Stjarnan með afar gott lið.
„Stjarnan skoraði átta stig á 30 sekúndum í fyrsta leiknum og ég var stressaður allan tímann. Ef þú slakar á í smá stund refsa þeir strax. Við héldum einbeitingu og gáfum allt saman. Ég mun njóta þess að komast í úrslit, sama hvað gerist þar, en við ætlum að vinna."
ÍR endaði í sjöunda sæti í Dominos-deildinni og gátu því fáir séð þetta fyrir.
„Við vorum að glíma við mikið af meiðslum og leikmannahópurinn okkar var aldrei alveg heill. Hákon missti t.d af fjórum leikjum í þessari seríu, en hann kom inn í smá stund núna og gerði gríðarlega vel. Við munum halda áfram að spila með hjartanu," sagði Ilievski.