ÍR-ingar þurfa nú að finna leiðir til að láta það ekki trufla sig að í næstu viku gætu þeir gengið um götur Reykjavíkur sem nýkrýndir Íslandsmeistarar í körfubolta.
Þeir slógu út silfurlið Njarðvíkur, þeir slógu út deildar- og bikarmeistara Stjörnunnar, og í gær sýndu þeir enn og sönnuðu hve mikið er í þá spunnið með því að vinna fimmfalda Íslandsmeistara KR, í þeirra húsi, í framlengdum spennuleik, 89:83. Björninn er hins vegar langt frá því að vera unninn – annað þessara liða veit upp á hár hvernig á að vinna titla en hitt heldur lærdómnum áfram í Seljaskóla á föstudagskvöld.
Sá möguleiki að ÍR verði meistari í fyrsta sinn í 42 ár, möguleiki sem flestallir hefðu hlegið að í síðasta mánuði þegar ÍR barðist við Hauka um að komast hreinlega í úrslitakeppnina, verður hins vegar æ raunverulegri. Liðið barðist frábærlega fyrir sigrinum í gær og í stað þess að reynsluboltarnir í hinu ævintýralega sigursæla liði KR sæju um að klára dæmið í þeirri spennu sem ríkti frá upphafi til enda voru það ÍR-ingar, í sínu fyrsta úrslitaeinvígi, sem sýndu stáltaugar þegar það þurfti.
Sjá allt um leik KR og ÍR á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag