Meistararnir jöfnuðu metin

Matthías Orri Sigurðarson með boltann en Jón Arnór Stefánsson fylgist …
Matthías Orri Sigurðarson með boltann en Jón Arnór Stefánsson fylgist með. mbl.is/Kristinn

Íslandsmeistarar KR svöruðu fyrir sig og jöfnuðu metin í úrslitaeinvígi sínu gegn ÍR á Íslandsmóti karla í körfuknattleik í kvöld. KR vann 86:73-sigur í Seljaskóla í Breiðholtinu og er staðan því 1:1 í einvíginu en liðin mætast á nýjan leik á mánudaginn í Vesturbænum.

ÍR-ingar unnu fyrsta leikinn í framlengdum spennuleik en í kvöld var spennan fyrst og fremst til staðar í fyrri hálfleik. Eftir hlé sýndu KR-ingar tennurnar og unnu nokkuð sannfærandi sigur þökk sé stórleik lykilmanna þeirra.

KR-ingar þurftu að mæta grimmir til leiks og þeir gerðu það. Julian Boyd var ÍR-ingum erfiður viðureignar og skoraði sjö af 21 stigi gestanna í fyrsta leikhluta gegn 15 frá ÍR. Það virðist þó vera óendanleg orka í Breiðhyltingum, sem leika nú til úrslita í fyrsta sinn í sögunni, og þeir sneru taflinu við fyrir leikhlé. Matthías Orri Sigurðarson fór þar fyrir sínum mönnum eins og svo oft áður en hann skoraði 11 stig, tók þrjú fráköst og gaf þrjár stoðsendingar í fyrri hálfleik er ÍR-ingar voru 37:31-yfir í hléi. Jón Arnór Stefánsson meiddist og lék því ekki með KR-ingum í seinni hálfleik en Vesturbæingar létu það ekki á sig fá.

KR-ingar eru hins vegar ekki að taka þátt í sínu fyrsta meistara einvígi og þeir mættu tvíefldir til leiks eftir hálfleik. Julian Boyd var hreinlega óstöðvandi á löngum köflum og þá hélt Pavel áfram að spila vel á sama tíma og Kristófer Acox fór að láta mikið að sér kveða í varnarleiknum. KR-ingar voru því mikið sprækari í þriðja leikhluta og unnu hann með 18 stiga mun, 32:14. Staðan var því 63:51 fyrir lokaleikhlutann, KR-ingum í vil.

Meistararnir nýttu svo reynslu sína í fjórða leikhluta til að halda ÍR-ingum í skefjum og sigla heim nokkuð sanngjörnum sigri til að jafna þessi æsispennandi rimmu liðanna um Íslandsmeistaratitilinn.

ÍR - KR 73:86

Hertz Hellirinn - Seljaskóli, Úrvalsdeild karla, 26. apríl 2019.

Gangur leiksins:: 4:2, 11:11, 14:16, 15:21, 20:23, 23:23, 30:29, 37:31, 42:39, 46:50, 48:55, 51:63, 54:67, 61:75, 67:79, 73:86.

ÍR: Kevin Capers 25/5 fráköst/6 stoðsendingar, Matthías Orri Sigurðarson 20/6 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 7, Sigurkarl Róbert Jóhannesson 7, Daði Berg Grétarsson 4, Hákon Örn Hjálmarsson 4, Trausti Eiríksson 3, Gerald Robinson 3/9 fráköst.

Fráköst: 23 í vörn, 7 í sókn.

KR: Julian Boyd 28/9 fráköst, Michele Christopher Di Nunno 20, Kristófer Acox 12/8 fráköst, Jón Arnór Stefánsson 8, Pavel Ermolinskij 6/10 fráköst/7 stoðsendingar, Björn Kristjánsson 6, Finnur Atli Magnússon 3, Helgi Már Magnússon 3/6 fráköst.

Fráköst: 31 í vörn, 10 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Ísak Ernir Kristinsson, Rögnvaldur Hreiðarsson.

Áhorfendur: 1256

ÍR 73:86 KR opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert