Vonandi endar titillinn í Breiðholtinu

ÍR-ingar eru iðulega vel studdir í Seljaskóla og sést hér …
ÍR-ingar eru iðulega vel studdir í Seljaskóla og sést hér stuðningssveit þeirra við störf í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Borche Ilievski, þjálfari ÍR, var að vonum svekktur eftir 86:73-tap gegn KR í úrslitaeinvígi liðanna á Íslandsmóti karla í körfuknattleik í Seljaskóla í kvöld. Staðan í einvíginu er nú 1:1 en liðin mætast aftur í Vesturbænum á mánudaginn.

„Eftir að Jón Arnór meiðist þá missum við einbeitingu og hættum að gera það sem við ætluðum að gera. Á sama tíma svara aðrir leikmenn KR kallinu og þeir skora jafn mikið í þriðja leikhluta og þeir gerðu í öllum fyrri hálfleik. Það var munurinn á liðinum í kvöld,“ sagði Ilievski í samtali við mbl.is en Jón Arnór Stefánsson meiddist á öxl í fyrri hálfleik og er óvíst með þátttöku hans í næsta leik.

„Sumir leikmenn ÍR eru of stressaðir og höndla það ekki nógu vel þegar þeir þurfa að vera leiðtogar og vinna leikinn. Þetta gerðist gegn Njarðvík og Stjörnunni og nú gegn KR. Við erum ekki að spila vel á heimavelli, ég veit ekki af hverju, kannski er of mikil pressa á okkur hérna,“ bætti þjálfarinn geðþekki við og tók Sigurð Gunnar Þorsteinsson sérstaklega út. „Siggi þarf að gera betur, hann var að gera mistök í kvöld og ég býst við miklu meiru frá honum á mánudaginn.“

„Við þurfum að hvíla núna, fara yfir mistökin okkar og lagfæra það sem laga þarf. KR-ingar tóku mikið af sóknarfráköstum, sérstaklega eftir hálfleik, og við þurfum að taka þessu alvarlega. Ef við viljum verða Íslandsmeistarar þurfa mínir menn að stiga upp! Þetta KR lið er svo fljótt að refsa, það er mikil meistara reynsla í þeirra liði.“

„Við gefumst auðvitað ekki upp, við gefum allt í sölurnar á mánudaginn og vonandi endar titillinn í Breiðholtinu.“

Borche Ilievski ræðir við leikmenn sína í Seljaskóla í kvöld.
Borche Ilievski ræðir við leikmenn sína í Seljaskóla í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert