Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari KR, segir að KR og ÍR muni spila einu sinni til viðbótar í DHL-höllinni í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitil karla í körfuknattleik. Til þess þarf KR sem er 1:2 undir að vinna næsta leik í Breiðholtinu.
„Já við ætlum að koma aftur hingað í Frostaskjólið laugardaginn 4. maí.“
ÍR hafði betur í kvöld 89:86 eftir framlengdan leik. KR missti niður afar góða stöðu, eða níu stiga forskot, á síðustu tveimur mínútum venjulegs leiktíma.
„Við létum þá ýta okkur út úr því sem við vildum gera og útfærðum sóknirnar illa undir lokin. Við sóttum ekki á körfuna eins og það hafði nú gengið vel fyrir okkur. Við fórum ekki til þess að klára dæmið á lokamínútunum,“ sagði Ingi þegar mbl.is tók hann tali en fram að því fannst honum KR stjórna leiknum.
„Við vorum algerlega með þetta. Úrslitin eru því mjög þungbær. Undir lok venjulegs leiktíma kom dómur sem ég hef ekki séð áður (KR fékk þá innkast en ekki víti þegar Helgi Már og Sigurður Þorsteins höfðu barist um frákast þegar 2 sekúndur voru eftir). Mér fannst margt skrítið vera í gangi undir lokin.“
Í framlengingunni fóru KR-inga illa með vítaskotin en þá fóru fimm af sex í súginn. „Við nýttum ekki vítaskotin okkar og það er rándýrt í svona leikjum. Við fengum tækifærin en nýttum þau ekki. Þegar ÍR skoraði sigurkörfuna þá fóru tveir í hjálparvörn undir lokin í staðinn fyrir einn. Þetta hefði því átt að verða tvíframlengdur leikur,“ sagði Ingi Þór Steinþórsson.