Einn leikjahæsti leikmaður ÍR í meistaraflokki í boltagreinum er í baklandi KR-inga nú þegar ÍR og KR berjast um Íslandsmeistaratitil karla í körfuknattleik.
Styrktarþjálfari KR-liðsins í vetur er Brynjar Steinarsson sem lék handknattleik í meistaraflokki ÍR í tæpa tvo áratugi, ef frá eru talin þrjú ár í Danmörku. Brynjar var raunar einnig styrktarþjálfari KR-inga þegar þeir urðu Íslandsmeistarar í fyrra.
Brynjar lék með meistaraflokki ÍR frá 1996 til 2003 og aftur frá 2006 til 2016 eftir Danmerkurdvölina.
Brynjar er sjálfsagt í snúinni stöðu nú þegar spennan nálgast suðumark í úrslitarimmu ÍR og KR. ÍR sló Stjörnuna út í undanúrslitum keppninnar.
Hefði farið svo að deildar- og bikarmeistarar Stjörnunnar hefðu unnið ÍR og komist í úrslitin gegn KR þá hefði Brynjar ekki síður verið í snúinni stöðu. Leikstjórnandi Stjörnunnar, Ægir Þór Steinarsson, er bróðir hans. Ægir er hins vegar uppalinn í Fjölni.
ÍR-ingar eru sjálfir ekki illa staddir varðandi styrktarþjálfun. Um þann þátt hjá karlaliðinu í körfuknattleik sér kúluvarparinn og ólympíufarinn Óðinn Björn Þorsteinsson.
ÍR og KR eigast við í fjórða leik liðanna í úrslitarimmunni í Breiðholti annað kvöld. ÍR er 2:1 yfir en vinna þarf þrjá leiki til að verða meistari.