„Vissulega er það sárt að hafa ekki náð að tryggja okkur titilinn hér á heimavelli en við höfum ekki sagt okkar síðasta orð,“ sagði Sigurður Gunnar Þorsteinsson leikmaðurinn öflugi í liði ÍR eftir tap gegn KR í fjórða úrslitaleik liðanna í Hertz hellinum í Seljaskóla í kvöld.
Í hreint magnaði umgjörð og æsispennandi leik höfðu KR-ingar betur 80:75 og náðu þar með að knýja fram hreinan úrslitaleik sem fram fer í DHL-höllinni á laugardagskvöldið.
„Við byrjuðum leikinn illa en heilt yfir vorum við góðir í þremur leikhlutum. Við erum orðnir vanir því að vinna á útivelli í þessari úrslitakeppni og við höldum því bara áfram,“ sagði Sigurður, sem skoraði 12 stig og tók 6 fráköst fyrir Breiðholtsliðið í kvöld.
„Þetta verður svakalegur úrslitaleikur á laugardagskvöldið og ég skal lofa þér því að þar ætlum við að selja okkur dýrt. Við ætlum að vinna þennan titil og með góði spilamennsku þá getum við gert það. Við getum ekki farið að hætta núna,“ sagði miðherjinn sterki við mbl.is.