„Fjaraði út allt of snemma“

Matthías á ferðinni í leiknum í kvöld.
Matthías á ferðinni í leiknum í kvöld. mbl.is/Hari

Matthías Orri Sigurðarson, lykilmaður ÍR-inga, sagði vörn ÍR-liðsins hafa verið hræðilega í oddaleiknum í kvöld sem KR vann 98:70. 

„Vörnin var bara hræðileg hjá okkur í kvöld. Það þarf ekki mikið meira fyrir KR-inga til að ganga frá leiknum og þeir gerðu það. Ég verð að hrósa þeim. Þeir voru betri en við og unnu,“ sagði Matthías en ÍR-ingar voru að spila sinn þriðja oddaleik í þessari úrslitakeppni. Þeir settu met því aldrei áður hefur það gerst að lið spili fimmtán leiki í úrslitakeppninni. Var engin þreyta farin að gera vart við sig hjá leikmönnum ÍR? 

„Jú kannski í lokin. Þegar bara einn leikur er eftir þá finnur maður auka orku. Ég fann ekki fyrir orkuleysi fyrr en seint í þriðja leikhluta og þá var farið að fjara undan þessu hjá okkur. Þá urðum við kannski benslínlausir. Almennt séð þá gírar maður sig bara upp fyrir leikina og það hefur gengið vel til þessa.“

ÍR-ingar voru án Kevins Capers í kvöld vegna meiðsla sem leikið hefur geysilega vel í úrslitakeppninni.  Stóra tækifærið fyrir ÍR var í raun fjórði leikurinn í Breiðholtinu en þar vann KR og jafnaði 2:2. 

„Klárlega. Við vorum með þá dagsetningu neglda niður og ætluðum að klára dæmið þá. Lengi vel leit það vel út (ÍR var þá sex stigum yfir þegar þrettán mínútur voru eftir) en við guggnuðum bara. Við því er ekkert annað að segja. Þeir unnu okkur bara „fair and square“ þar. Svo var auðvitað mjög svekkjandi að missa Kevin en þetta fjaraði allt of snemma út í kvöld. Mér finnst að það ætti að vera meiri barátta í okkur en þetta. KR-ingarnir voru frábærir og áttu þetta skilið,“ sagði Matthías í samtali við mbl.is.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert