Lygilegur árangur KR-inga

KR varð í kvöld Íslandsmeistari karla í körfuknattleik sjötta árið í röð. KR sigraði ÍR 98:70 í hreinum úrslitaleik um sigur á Íslandsmótinu í DHL-höllinni í Vesturbæ. KR vann úrslitarimmuna 3:2 samtals. 

Ekkert annað lið hefur náð þeim árangri að verða Íslandsmeistari karla í körfuknattleik sex sinnum í röð og KR-ingar settu því met í kvöld. Lauk þar með hreint magnaðri úrslitakeppninni þar sem dramatíkin var alls ráðandi og hófst strax í 8-liða úrslitum. 

KR tók snemma forystuna í þessum oddaleik og var yfir nánast allan leiktímann. Munurinn var þó ekki nema tvö stig eftir fyrsta leikhluta en í öðrum leikhluta jókst munurinn mjög. Að loknum fyrri hálfleik var staðan 44:32 fyrir KR og sterkar vísbendingar um hvert stefndi.

ÍR-ingar virkuðu daufir án Kevins Capers og höfðu lítinn tíma til að bregðast við því áfalli. Sigursælir leikmenn KR fundu blóðbragðið og gengu á lagið. Í síðari hálfleik náðu þeir tuttugu stiga forskoti og leikurinn var þægilegur fyrir KR-inga í síðasta leikhlutanum. Þeir eru allt of sigursælir og leikreyndir til þess að missa niður stórt forskot í oddaleik. Í oddaleik fyrir tveimur árum valtaði KR-liðið yfir Grindavík og leikmenn KR kunna að höndla spennuna sem slíkum leikjum fylgir. 

Sigurður Þorsteinsson dró vagninn hjá ÍR í kvöld. Matthías Orri reyndi eins og hann gat en komst stundum lítt áleiðis þegar Jón Arnór Stefánsson sá um að valda hann. Hákon Örn Hjálmarsson var nokkuð sprækur hjá ÍR þótt ungur sé. Gerald Robinson féll hins vegar á prófinu í kvöld hann hefði þurft að skila miklu meira fyrir ÍR. Hann skoraði 4 stig og tók 6 fráköst. Ekki rétti tíminn til að koðna niður í sókninni þegar Capers er meiddur. 

Michele Di Nunno gaf tóninn hjá KR í upphafi leiks þegar hann setti niður fyrstu fjögur þriggja stiga skot sín á fyrstu fimm mínútunum. Alls skoraði hann 29 stig. KR fékk gott framlag frá Emil Barja sem setti niður þrjá þrista og Jón Arnór átti góðan leik. Margir fleiri lögðu í púkkið og KR spilaði góða vörn eins og liðið hefur iðulega gert á síðustu árum þegar liðið hefur fagnað meistaratitlinum. 

Mbl.is er í Frostaskjóli og fylgist með gangi mála í beinni textalýsingu hér að neðan.

Lið KR: Michele DiNunno, Kristófer Acox, Finnur Atli Magnússon, Björn Kristjánsson, Jón Arnór Stefánsson fyrirliði, Helgi Már Magnússon, Vilhjálmur Jensson, Orri Hilmarsson, Emil Barja, Pavel Ermolinskij, Sigurður Þorvaldsson, Julian Boyd. 

Lið ÍR: Ólafur Gunnlaugsson, Ísak Wium, Gerald Robinson, Matthías Orri Sigurðarson, Trausti Eiríksson, Hákon Orri Hjálmarsson, Daði Berg Grétarsson fyrirliði, Hjalti Friðriksson, Benoný Svanur Sigurðsson, Sæþór Elmar Kristjánsson, Sigurður Gunnar Þorsteinsson, Sigurkarl Róbert Jóhannesson. 

KR - ÍR 98:70

DHL-höllin, Úrvalsdeild karla, 04. maí 2019.

Gangur leiksins:: 9:4, 14:7, 20:14, 22:20, 30:20, 35:24, 42:30, 44:32, 50:34, 57:39, 62:49, 71:53, 74:59, 84:61, 91:68, 98:70.

KR: Michele Christopher Di Nunno 29, Julian Boyd 21/10 fráköst, Emil Barja 12, Jón Arnór Stefánsson 10, Björn Kristjánsson 9/5 stoðsendingar, Kristófer Acox 8/9 fráköst, Helgi Már Magnússon 5, Sigurður Á. Þorvaldsson 3, Vilhjálmur Kári Jensson 1.

Fráköst: 17 í vörn, 12 í sókn.

ÍR: Hákon Örn Hjálmarsson 18, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 16/6 fráköst, Matthías Orri Sigurðarson 14/4 fráköst/6 stoðsendingar, Sigurkarl Róbert Jóhannesson 9/7 fráköst, Sæþór Elmar Kristjánsson 7/7 fráköst, Gerald Robinson 4/6 fráköst, Hjalti Friðriksson 2.

Fráköst: 20 í vörn, 11 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Kristinn Óskarsson, Leifur S. Gardarsson.

Áhorfendur: 1200

KR 97:70 ÍR opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert