Ragar og hræddar í upphafi

Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar.
Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

„Þær eru með gott lið og þær refsa fyrir þau mistök sem við gerum og við gerðum aðeins of mörg í dag,“ sagði Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir 80:78 tap á útivelli gegn Haukum í  í átta liða úrslitum Íslandsmóts kvenna í körfubolta í Ólafssal á Ásvöllum. 

„Við vorum ragar í upphafi, svolítið hræddar en það er frábært að geta gefið þeim leik í fjórða leikhluta, förum í 17:0 kafla og komum þessu niður í eitt stig.

Mér fannst þetta aldrei detta frá okkur en það verður gat í þriðja leikhluta því við lokum öðrum illa. Þetta verður stórt gat, 17 eða 18 stig sem er mjög mikið en við náum að koma þessu í bévítans barning í restina og það mátti litlu muna,“ sagði Arnar í viðtali við mbl.is eftir leikinn.

Leikurinn var spennandi undir lokinn og það munaði aðeins tveimur stigum á liðunum í lokin þegar Ísold Sævarsdóttir náði skoti á körfuna en náði ekki að setja það.

„Ég var rosalega stoltur af þeim að ná lúkki. Ég átti ekkert leikhlé eftir og þær þurftu bara að finna út úr þessu sjálfar.

Mér fannst Ísold gera mjög vel að koma sér í þessa stöðu til að kasta boltanum upp. Svo er þetta bara eins og lottó hvort það séu tveir eftir eða þrír og það var enginn eftir þarna og það er bara eins og það er.“

Staðan er núna 2:1 fyrir Haukum en liðin mætast aftur á sunnudaginn.

„Við þurfum að fara í Garðabæinn og vera óhræddar. Gera mistök með ákefð en ekki mistök með því að vera passívar.,“ sagði Arnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert