109 Arctica Finance hf.

Stærðarflokkur Meðalstórt
Röð innan flokks 2
Landshluti Höfuðborgarsvæði
Atvinnugrein Fjármála- og vátryggingastarfsemi
Starfsemi Fjárvörslusjóðir, sjóðir og önnur sérhæfð fjársýslufélög
Framkvæmdastjóri Stefán Þór Bjarnason
Fyrri ár á listanum 2012–2019
Framúrskarandi 2023

Hvernig gengur reksturinn?

Eignir 808.536
Skuldir 202.629
Eigið fé 605.907
Eiginfjárhlutfall 74,9%
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Eigendur og eignarhald

Þekktir hluthafar 11
Endanlegir eigendur 13
Eignarhlutur í öðrum félögum 9
Endanleg eign í öðrum félögum 23

Lánshæfismat félaga í sömu grein

Meðallánshæfi félaga í atvinnugreininni Fjármálaþjónusta, þó ekki starfsemi vátryggingafélaga og lífeyrissjóða

pila

Tiltölulega áhættulítil

Meira um fyrirtækið hjá CreditInfo

„Við leggjum áherslu á óhæði og traustan rekstur“

Stefán Þór Bjarnason, framkvæmda­stjóri fjármálafyrirtækisins Arctica Finance, segir fjármálamarkaðinn hafa breyst umtalsvert á síðustu 15 árum sem liðið hafa frá stofnun fyrirtækisins.

Arctica Finance er framsækið fyrirtæki sem veitir fjársterkum aðilum á borð við fagfjárfesta fjármálaþjónustu og ráðgjöf þar sem áhersla er lögð á traust og fagmennsku.

„Í upphafi fólst þjónusta félagsins eingöngu í fyrirtækjaráðgjöf, einkum fjárhagslegri endurskipulagningu í kjölfar efnahagshrunsins. Síðar voru starfsheimildir félagsins fullnýttar með stofnun miðlunar og síðar eignastýringar,“ segir Stefán Þór en Arctica Finance hlaut starfsleyfi frá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands árið 2009 þrátt fyrir að sögu félagsins megi rekja til ársins áður.

Þrenns konar tekjusvið

Að sögn Stefáns felst starfsemi Arctica Finance aðallega í að veita fjármálaþjónustu í gegnum þrjú tekjusvið; eignastýringu, markaðsviðskipti og fyrirtækjaráðgjöf.

„Fyrirtækjaráðgjöf sinnir fjölbreyttri þjónustu í tengslum við kaup og sölu fyrirtækja auk þess að aðstoða viðskiptavini við fjármögnun til dæmis með útgáfu hluta- eða skuldabréfa. Markaðsviðskipti sinna miðlun verðbréfa. Umfangsmest eru eðlilega viðskipti með skráð innlend verðbréf, bæði hluta- og skuldabréf. Sala víxla, skulda- og hlutabréfa fyrir hönd útgefanda eru einnig meðal þess sem sérfræðingar markaðsviðskipta fást við. Svo er það eignastýring en á því sviði felst þjónusta Arctica Finance einkum í virkri stýringu eignasafna fyrir lögaðila. Þjónusta félagsins á sviði eignastýringar hefur verið í mikilli þróun síðustu ár. Liður í þeirri þróun var stofnun sjóðastýringarfélagsins A/F Rekstraraðila, en áformað er að framtíðaruppbygging á þjónustu eignastýringar muni einkum fara fram innan þess félags í framtíðinni,“ útskýrir Stefán Þór.

Breytingar orðið á markaðnum

Stefán segir mikla þróun hafa átt sér stað á íslenskum fjármálamarkaði síðustu ári þar sem félög hafi stækkað til muna og þeim tekist að auka verðmætasköpun sína í kjölfarið.

„Félög hafa verið að stækka með yfirtökum og sameiningum og ekki er útilokað að sú þróun haldi áfram á næstu árum. Fjártæknin hefur líka breytt leiknum á sumum sviðum og líklegt að áhrif fjártækni á fjármálamarkað framtíðarinnar verði mun meiri næstu ár og misseri.“

Að sögn Stefáns eru margir þættir í rekstri Arctica Finance sem gera félagið frábrugðið öðrum sambærilegum félögum. Óhæði og einfaldleiki eru þeirra á meðal.

„Frá upphafi hefur allri stoðþjónustu verið útvistað í rekstri Arctica Finance. Meðal annars af þeirri ástæðu starfa færri starfsmenn hjá félaginu. Mun færri en almennt þekkist hjá flestum samkeppnisaðilum okkar á fjármálamarkaði. Arctica Finance hefur einnig alla tíð verið eingöngu í eigu starfsmanna félagsins og það er mjög óalgengt í þessum geira. Annað sem gerir okkur frábrugðin öðrum er sú staðreynd að Arctica Finance stundar hvorki eigin viðskipti né veitir útlán til viðskiptavina sem, auk eignarhaldsins, tryggir óhæði félagsins í þeim verkefnum sem félagið tekur að sér fyrir viðskiptavini sína,“ segir Stefán sem leggur allt kapp á farsælan fyrirtækjarekstur en velta Arctica Finance jókst um 14% á síðasta ári.

Aukin umsvif og velgengni síðustu ár

„Stærsta ástæðan fyrir því að vel hefur gengið í rekstri félagsins er sú að við höfum verið afar heppin með að fá til okkar gott starfsfólk sem hefur náð að veita viðskiptavinum okkar framúrskarandi þjónustu þar sem órjúfanlegt traust og trúverðugleiki hefur leikið stórt hlutverk. Við leggjum áherslu á traustan rekstur og heilbrigðan efnahag,“ segir Stefán.

Stefán segir það jafnframt vera miserfitt fyrir fyrirtæki á fjármálamarkaði að gera nákvæmar tekjuáætlanir meðal annars vegna þess hve tekjumyndun þeirra er ólík. Hann segir oft erfitt að áætla tekjur verðbréfa fyrirtækja eins og Arctica Finance en hvað sem því líður hefur Arctica Finance verið á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki frá árinu 2012.

„Einfalda leiðin til að halda fyrirtæki réttum megin við núllið þarf einfaldlega að afla meiri tekna en félagið eyðir en oft getur raunveruleikinn verið aðeins flóknari en það. Tekjur verðbréfa fyrirtækis eins og Arctica Finance eru ekki vaxtatekjur af útlánasafni eða annars konar fyrirsjáanlegar tekjur heldur eru þær nánast eingöngu þóknanir vegna sérfræðiþjónustu tengdri miðlun eða fyrirtækjaráðgjöf sem eru mörgum skilyrðum háð. Þess vegna getur verið erfitt að gera nákvæmar tekjuáætlanir fram í tímann í okkar geira,“ lýsir hann og bendir á að einfaldara sé að áætla kostnaðarhlið rekstursins hverju sinni.

„Við erum afar stolt af því að hafa verið eins oft á lista yfir framúrskarandi fyrirtæki síðustu ár eins og raun ber vitni. Á þeim 15 árum sem liðin eru frá stofnun félagsins höfum við tekið fá en varfærin skref til stækkunar og gætt þess að taka ekki áhættu umfram það sem félagið ræður við. Þeirri vegferð komum við til með að viðhalda í náinni framtíð með því að leggja áherslu á að auka áfram hlutdeild okkar og sinna vel þeim verkefnum sem okkur eru falin. Þannig aukum við best líkurnar á að viðskiptavinir treysti okkur áfram um ókomna tíð.“ asthildur@mbl.is

mbl.is

Fleiri greinar og viðtöl

Samstarfsaðilar