Skoða lengri frest fyrir slitabúin

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir koma til greina að framlengja frest slitabúanna til þess að ljúka nauðasamningum. Seðlabanki Íslands hefur vísað undanþágubeiðnum slitabúanna til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd.

Samkvæmt núgildandi tímafresti þurfa slitabúin að ljúka nauðasamn­ing­um fyrir áramót til þess að kom­ast hjá greiðslu 39 pró­sent stöðug­leika­skatts. „Það er óhætt að segja að það hefur þrengst mjög um þennan tímaramma,“ segir Bjarni aðspurður um stöðuna sem upp er komin, en slitabúin hafa viðrað áhyggjur af því að vera fallin á tíma í bið eftir svörum.

Hann segist hafa rætt möguleikann á framlengingu við efnahags- og viðskiptanefnd og vísar til þess að dómstólar gætu þurft aukið svigrúm til þess að taka afstöðu til þessara stóru nauðasamninga.

Þá vísar Bjarni jafnframt til laga­breyt­ing­a er eiga að greiða götur slita­bú­anna að því leyti að slaka á kröf­um um nauðsyn­legt at­kvæðamagn til þess að fá nauðasamn­ing staðfest­an. Bjarni vonast til þess að breytingarnar verði samþykktar þegar Alþingi kemur aftur saman í næstu viku.

Kynnt í nefnd á morgun

Fjallað var um svokallað samráðsbréf frá Seðlabankanum á ríkisstjórnarfundi í morgun. Bréfinu fylgdi greinargerð um áhrif uppgjörs slitabúanna á fjármálastöðugleika. Bjarni segir að farið verði yfir þessi gögn í dag og verða þau kynnt á fundi efnahags- og viðskiptanefndar á morgun. 

Þá verður málið einnig kynnt fyrir þingflokkum. 

Bjarni segir það liggja í hlutarins eðli að Seðlabankinn hafi tekið afstöðu til málsins í samráðsbréfinu en segir rétt að fjalla um það í efnahags- og viðskiptanefnd áður en nánar verður farið út í efni þess.

Samkvæmt lögum um gjaldeyrismál þarf málið að fá umfjöllun hjá nefnd­inni áður en Seðlabankinn getur veitt slitabúunum svör við undanþágubeiðnunum og er þetta því í raun lokaskrefið í málinu.

Gögnin þegar send út

Líkt og greint var frá í Morgunblaðinu í dag hafa slitastjórnir Kaupþings og Landsbankans (LBI) sent kröfuhöfum lykilupplýsingar um frumvarp að nauðasamningi búsins.

Eftir þessa birtingu gefst afar lítið svigrúm til breytinga og eru slitabúin því að treysta á að nauðasamningsdrögin sem eiga að mæta stöðuleikaskilyrðunum verði að mestu leyti samþykkt.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur slitastjórn Kaupþings ákveðið að boða til kröfuhafafundar hinn 24. nóvember næstkomandi þar sem kosið verður um nauðasamning. Mun hann fara fram hérlendis. 

LBI, slitabú gamla Landsbankans, hefur boðað til kröfuhafafundar í sama skyni þann 17. nóvember næstkomandi.

mbl.is
Bjarni segist hugu að lengri frest til þess að veita …
Bjarni segist hugu að lengri frest til þess að veita dómstólum aukið svigrúm. mbl.is/Ernir Eyjólfsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK