Ekki eitt jen óuppgefið

Carlos Ghosn, fyrrverandi stjórnarformaður Nissan, segist saklaus af ákærunum. Þær …
Carlos Ghosn, fyrrverandi stjórnarformaður Nissan, segist saklaus af ákærunum. Þær séu runnar undan rifjum stjórnenda Nissan sem hafi hræðst frekari sameiningu við Renault. AFP

Carlos Ghosn, fyrrverandi stjórnarformaður Nissan, segist ekki hafa tekið svo mikið sem eitt jen ófrjálsri hendi í starfi sínu hjá japanska bílaframleiðandanum. Hann segir stjórnendur Nissan að baki handtökunni og kveðst sæta harðræði í varðhaldinu.

Ghosn, sem hef­ur verið ákærður fyr­ir fjár­mála­m­is­ferli, kom með þessar fullyrðingar í viðtali við fréttaveitu AFP og franska dagblaðið Les Echos, sem birt var í dag.

Hann var hand­tek­inn í nóv­em­ber og sakaður um að hafa ekki gefið rétt­ar upp­lýs­ing­ar um laun sín og fyr­ir að hafa notað eign­ir fyr­ir­tæk­is­ins til per­sónu­legra nota utan vinnu­tíma og hefur síðan þá verið í varðhaldi. Sjálfur segir Ghosn tímalengd varðhaldsins og þær aðstæður sem hann sætir þar ekki eðlilegar.

Segir staðreyndir teknar úr samhengi

„Mér hefur verið synjað um að vera látinn laus gegn greiðslu tryggingar. Það teldist ekki eðlilegt í neinu öðru lýðræðisríki,“ segir Ghosn. Þá standi hann einn gegn heilum her frá Nissan. „Þar eru meira en hundrað manns sem eru bara að vinna í þessu máli og svo eru 70 manns á skrifstofu saksóknara, síðan er það ég sem hef verið látinn sitja inni í rúma 70 daga. Ég hef engan síma og enga tölvu þannig að hvernig á ég að verja mig?“

Varðhaldsfangelsið í Tókýó þar sem Ghosn hefur nú verið í …
Varðhaldsfangelsið í Tókýó þar sem Ghosn hefur nú verið í haldi í rúma 70 daga. Hann neitar ásökununum gegn sér. AFP

Ghosn segist þá ekki bara þurfa að mæta ásökunum saksóknara, heldur einnig ásökunum forsvarsmanna Nissan. „Þeir taka fjölda staðreynda úr samhengi. Þetta er afskræming á raunveruleikanum til þess gerð að eyðileggja mannorð mitt.“

Þá segir Ghosn að meðal þeirra sem nú vinna að rannsókninni séu einstaklingar sem standa að baki ásökununum. „Þeir voru í innsta hring varðandi lagalegu málin,“ segir hann og kveður hlutverk margra í málinu vera skrýtið.

„Þetta kemur mjög svo á óvart. Mér er synjað um réttinn til að verja sjálfan mig og með því er ég bara að tala um réttlæti.“

Ekkert úr og ljósin alltaf kveikt

Ghosn er líka ósáttur við þær aðstæður sem hann sætir í varðhaldinu. „Ljósin eru kveikt alla nóttina. Ég fæ ekki að vera með úr og hef því ekkert tímaskyn. Ég fæ hálftíma þar sem ég fæ að vera utandyra á þakinu og ég þrái orðið ferskt loft,“ segir hann og kveðst enn hafa baráttuvilja en hann sé þreyttur.

Þá hafi hann ekki fengið að tala við fjölskyldu sína frá því 19. nóvember á síðasta ári. Hann hafi hvorki fengið að tala við eiginkonu sína né börn. „Elsta dóttir mín átti 29 ára afmæli og ég mátti ekki óska henni til hamingju með afmælið. Þetta er í fyrsta skipti sem það gerist og það var erfitt,“ segir Ghosn.

Hann segir engan efa í sínum huga um að svik liggi að baki ákærunni. Hugmyndir hans um frekari sameiningu Nissan og franska bílaframleiðandans Renault, sem hann var forstjóri fyrir, hafi mætt hræðslu og andstöðu.

„Ég sagði að ef ég fengi umboð til þess þá yrði unnið að mun meiri sameiningu,“ útskýrir Ghosn og segir markmiðið hafa verið ljóst, en það hafi þó frá upphafi sætt mótstöðu.

„Ég átti ekki von á þessu, en þetta leiddi til ráðabruggsins.“

Kveðst Ghosn hafa ætlað að stofna eignarhaldsfélag sem ætti öll hlutabréfin og stjórna þremur einingum sem hver og ein hefði fulla sjálfsstjórn.

„Ég er sakaður um að hafa vangreint tekjur mínar. Það er ekki eitt einasta jen sem ég fékk greitt sem ég gaf ekki upp,“ segir Ghosn.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka