Fyrrverandi stjórnarformaður Nissan, Carlos Ghosn, verður ekki heimilt að yfirgefa Japan en verður látinn laus gegn tryggingu. Þetta er ákvörðun hæstaréttar Japans og kom ákvörðunin mjög á óvart því í tvígang hefur dómurinn hafnað beiðni lögmanna Ghosn um lausn gegn tryggingu.
Greiða þarf einn milljarð jena í tryggingu fyrir forstjórann og greina japanskir fjölmiðlar frá því að hann muni væntanlega verða látinn laus síðar í dag. Ýmis skilyrði eru sett fyrir lausninni til þess að koma í veg fyrir að hann geti haft áhrif á rannsókn málsins.
Carlos Ghosn segist ekki hafa tekið svo mikið sem eitt jen ófrjálsri hendi í starfi sínu hjá japanska bílaframleiðandanum. Hann segir stjórnendur Nissan að baki handtökunni. Hann er ákærður fyrir fjármálamisferli.
Hann var handtekinn í nóvember og sakaður um að hafa ekki gefið réttar upplýsingar um laun sín og fyrir að hafa notað eignir fyrirtækisins til persónulegra nota utan vinnutíma og hefur síðan þá verið í varðhaldi. Sjálfur segir Ghosn tímalengd varðhaldsins og þær aðstæður sem hann sætir þar ekki eðlilegar en hann hefur setið rúma þrjá mánuði í varðhaldi.