Álverðið að nálgast 2.700 dali

Verð á áli í Kauphöllinni með málma í London (LME) hefur hækkað mikið í þessum mánuði og var tæplega 2.700 dalir tonnið fyrr í vikunni. Það er nú um 2.560 dalir. Guðríður Eldey Arnardóttir, framkvæmdastjóri Samáls, segir að helsta skýringin á verðhækkuninni undanfarið sé sú að stjórnvöld í Bretlandi og Bandaríkjunum hafi bannað verslun með málma frá Rússlandi vegna stríðsins í Úkraínu.

Ekki aðrar skýringar

Greinendur telja, að hennar sögn, að ekki séu aðrar skýringar á hækkuninni. Nánar tiltekið hefur verslun með málma frá Rússlandi verið bönnuð í Kauphöllinni með málma í London og í kauphöllinni með hrávörur í Chicago (CME).

Rússar eru stórtækir á álmarkaði og eru með hér um bil um 5% heimsframleiðslunnar. Því munar um bannið.

Eftir innrás Rússa í Úkraínu í febrúar 2022 skall á orkukreppa í Evrópu. Lokað var á gas frá Rússlandi og hækkaði orkuverð með þeim afleiðingum að álverum í Evrópu var lokað. Við það hækkaði álverðið. Samhliða var orkukreppa í Kína. Það ýtti einnig undir álverðið.

Birtist í afkomu álveranna

Þessi þróun birtist í afkomu álveranna á Íslandi sem var ágæt árið 2022 eftir nokkur mögur ár og umræðu um hugsanlega lokun álversins í Straumsvík.

Að sama skapi jók þessi þróun tekjur Landsvirkjunar og Orkuveitunnar enda eru raforkusamningar að hluta tengdir álverði. Guðríður Eldey segir alls óvíst hversu varanleg áhrif viðskiptabannið á Rússa muni hafa á álverðið en að ætla megi að þau áhrif vari í einhvern tíma.

Miklar sveiflur geta verið í álverði. Til dæmis var álverðið 3.800-3.900 dalir á tonnið þegar hæst lét í mars 2022, skömmu eftir innrás Rússa í Úkraínu, en í lok september það ár var verðið undir 2.200 dölum.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK