Fólk kaupir dýrara og vandaðra í kófinu

Ragnar Hjartarson hefur lengi starfað í fagurkerabransanum.
Ragnar Hjartarson hefur lengi starfað í fagurkerabransanum. Ljósmynd/Henning Hjorth

Á 117 árum hefur silfurrisinn Georg Jensen í Kaupmannahöfn gengið gegnum ýmislegt. Það hafa verið heimsstyrjaldir, iðnvæðingin, stafræna byltingin og þannig mætti lengi telja. Allt hefur þetta haft áhrif á starfsemina. Nú er það heimsfaraldur kórónuveirunnar. Ragnar Hjartarson, listrænn stjórnandi hjá Georg Jensen, segir hann þó alls ekki hafa komið illa við fyrirtækið.

„Það hefur verið merkilegt að fylgjast með þessu en lúxusvörur hafa víða haldið sínum hlut á markaðnum. Fólk kaupir dýrara og vandaðra en í minna mæli. Við finnum líka fyrir því að fólk hugsar betur um heimilið en áður enda er það miklu meira þar en í venjulegu árferði og margir hafa þurft að vinna heima vikum og mánuðum saman. Það hefur aukið söluna hjá okkur í hönnun fyrir heimilið.

Það á einnig við um garðvörur enda leggur fólk upp til hópa meiri rækt við garðinn í þessu ástandi, auk þess sem fjöldi fólks hefur verið að krækja svölum utan á íbúðir sínar og svo framvegis. Við hjá Georg Jensen þurfum ekki að kvarta undan samdrætti í heimsfaraldrinum,“ segir Ragnar.

Swarovski farið illa út úr kófinu

Gamli vinnuveitandi Ragnars, Swarovski, þar sem hann vann í níu ár áður en hann sneri aftur til Georgs Jensens í sumar. hefur á hinn bóginn farið illa út úr kófinu, eins og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum. Endurskipuleggja þurfti reksturinn með tilheyrandi hagræðingu og uppsögnum. Ragnar fór ekki varhluta af því en hann þurfti að segja upp mörgum starfsmönnum á sínu sviði.

Sýnishorn af hönnun frá Georg Jensen.
Sýnishorn af hönnun frá Georg Jensen. Ljósmynd/Georg Jensen

„Ég missti margt af mínu besta fólki. Það er mjög erfitt að ganga gegnum slíkt en óhjákvæmilega hluti af starfinu. Það gleður mig hins vegar mjög að flestir ef ekki allir eru búnir að koma sér fyrir annars staðar. Ég er í góðu sambandi við allt þetta fólk enda voru þetta ekki bara vinnufélagar mínir, heldur líka vinir. Það er eðli þessara fyrirtækja. Við erum öll ein fjölskylda.

Sama gildir hjá Georg Jensen. Ég hef haldið sambandi og vináttu við marga frá því ég var hérna í fyrra skiptið. Það er mikil tilfinning í þessum bransa, ólíkt því sem þekkist í banka- eða bílabransanum, svo dæmi sé tekið. Þetta er miklu persónulegra og nánara – og snýst allt um fegurð og gæði. Þannig lagði Georg heitinn Jensen þetta upp fyrir meira en hundrað árum og þannig hefur það haldist allar götur síðan. Hann vildi gera eins fallega hluti og hægt væri og þeirri forskrift hefur verið fylgt fram á þennan dag. Við erum mjög stolt af sögu okkar.“

360 gráðu skilningur

Sérsvið Ragnars er munaðarvara á borð við skartgripi og armbandsúr, auk hvers kyns hönnunar fyrir heimilið, en auk Georgs Jensens og Swarovskis hefur hann unnið fyrir Cartier, Boucheron og Hermès. Hann hefur gegnt margvíslegum störfum hjá þessum fyrirtækjum, svo sem á sviði markaðsmála, hönnunar, vöruþróunar, sölumála og listrænnar stjórnunar. Takturinn er sá að hann tekur að sér ákveðin þróunarverkefni en hugsar sér síðan til hreyfings þegar þau eru komin á rekspöl og hlutverki hans lokið.

„Það getur komið sér vel að hafa spreytt sig á mörgu og þannig öðlast 360 gráðu skilning á starfseminni. Það eru ekki margir í þessum bransa með eins víðtæka reynslu og ég. Oftast eru þetta tvö til fimm ár hjá mér á sama stað en ástæðan fyrir því að ég var búinn að vera svona lengi hjá Swarovski er sú að eitt verkefni rak annað. Ég er áfram í góðu sambandi við fyrirtækið og fjölskylduna sem á það og hver veit nema ég snúi aftur þangað í framtíðinni. Þetta flakk á mér er ekkert einsdæmi; það er mjög algengt að fólk flytjist á milli fyrirtækja í þessum bransa.“

Sýnishorn af hönnun frá Georg Jensen.
Sýnishorn af hönnun frá Georg Jensen. Ljósmynd/Georg Jensen

Hann hefur haft yndi af öllum þeim störfum sem hann hefur tekið að sér en kveðst hafa sérstaka ánægju af því að vera í samskiptum við kúnnana. Það gefur honum mikið. Þá segir hann alltaf jafn gaman að fylgja nýrri hönnun úr hlaði en þá þurfi menn að búa að þolinmæði enda tekur slíkt ferli að jafnaði tvö til þrjú ár þangað til varan er komin í verslanir.

Það var í byrjun ársins að Ragnar fékk símtal frá Georg Jensen og honum boðin spennandi staða listræns stjórnanda. „Ég þurfti ekki að hugsa mig lengi um áður en ég sló til enda hefur mér alltaf liðið eins og starfi mínu hér væri ekki lokið. Það að gera breytingar er mínar ær og kýr og það er gullið tækifæri að fá að koma inn í rótgróið fyrirtæki eins og Georg Jensen með nýja skapandi sýn. Fyrirtækið var stofnað árið 1904 og eins og mörg af fyrirtækjunum í þessum bransa var það brautryðjandi á sínu sviði og hefur haldið þeirri stöðu fram á þennan dag. Sagan er áþreifanleg hér í Kaupmannahöfn sem er algjör veisla fyrir forfallna sögugrúskara eins og mig.“

Hægt að gera betur

Að því sögðu þá hefur þróunin ekki verið nægilega mikil undanfarin tíu ár eða svo, að mati Ragnars, og honum fannst því hægt að gera betur. „Þegar tilboðið kom fór ég strax að velta fyrir mér hverju ég gæti bætt við núna; hvernig krydda mætti hönnunina án þess þó að hvika frá grunngildum og stöðlum Georgs Jensens. Það er alltaf spennandi línudans, milli hefða og nýsköpunar. Nauðsynlegt er að sækja fram en halda um leið í DNA fyrirtækisins.“

Nánar er rætt við Ragnar Hjartarson í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK