Bjarni tilkynnir um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagssráðherra
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagssráðherra mbl.is/Unnur Karen

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra hefur ákveðið að hefja framhald sölumeðferðar á hlutum í Íslandsbanka. Ráðherrann tilkynnti Bankasýslunni ákvörðun sína í dag en ríkið á í dag um 65% hlut í bankanum.

Þetta kemur fram á vef Fjármálaráðuneytisins.

Ákvörðun ráðherra byggir á fyrirliggjandi greinargerð sem lögð var fyrir fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingi og felur í sér að bankinn skuli seldur í áföngum fyrir árslok 2023.

Umsagnir nefndanna liggja nú fyrir, en meiri hlutar þeirra beggja mæla með því að hafist verði handa við framhald sölu. Þá telur Seðlabankinn að telja megi að jafnræði bjóðenda verði tryggt og er salan talin hafa takmörkuð áhrif á gjaldeyrismarkað, gjaldeyrisforða bankans og laust fé í umferð.

Framhald sölu verður háð því að markaðsaðstæður séu hagfelldar. Þrátt fyrir að ófriður í Austur Evrópu hafi haft margháttuð áhrif á eigna- og fjármálamarkaði á heimsvísu telur Bankasýslan að það raski ekki meginforsendum söluáformanna að svo stöddu.

Ríkissjóður seldi í fyrra um 35% hlut sinn í Íslandsbanka og fékk fyrir það um 55 milljarða króna. Áætlað markaðsvirði bankans var þá um 158 milljarðar króna. Bankinn var í kjölfarið skráður á markað og hefur markaðsvirði hans hækkað um rúm 50% síðan þá. Áætlað markaðsvirði á eignarhlut ríkisins er því í dag rúmlega 100 milljarðar króna.

Horft verður til þess að sala á eftirstandandi eignarhlut í bankanum verði í nokkrum áföngum yfir allt að tveggja ára tímabil. Nákvæm tímasetning og fjárhæð einstakra söluáfanga muni því taka mið af ytri aðstæðum eins og sveiflum í hagkerfinu, stöðu fjármálamarkaða, hlutabréfamarkaða og þróun heimsmála almennt.

Íslenska ríkið á enn um 65% hlut í Íslandsbanka. Sá …
Íslenska ríkið á enn um 65% hlut í Íslandsbanka. Sá hlutur er í dag metinn á yfir 100 milljarða króna. Morgunblaðið/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK