Síðastliðið ár var ekki hagfellt íslenskum lífeyrissjóðum og snarpur viðsnúningur varð frá góðri ávöxtun á árinu á undan, þar sem þróunin á verðbréfamörkuðum varð mjög óhagstæð eftir miklar hækkanir áranna á undan.
Sjóðirnir munu að öllum líkindum birta á næstu dögum og vikum yfirlit úr ársreikningum sínum fyrir árið 2022 og hafa þegar nokkrir þeirra birt upplýsingar um afkomuna á seinasta ári.
Landssamtök lífeyrissjóða hafa áætlað að á heildina litið hafi raunávöxtun lífeyrissjóða verið neikvæð um tæplega 12% á árinu 2022.
Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar (LSRB) er meðal þeirra fyrstu sem birt hafa ársreikning fyrir síðastliðið ár og kemur í ljós að nafnávöxtun eignasafns sjóðsins var neikvæð um 1,7% og raunávöxtunin var neikvæð um 10,1%.
Hrein eign sjóðsins til greiðslu lífeyris í fyrra var um 87,2 milljarðar kr. og heildareign sjóðsins umfram skuldbindingar nam 15,5 milljörðum. Sjóðurinn nýtur bakábyrgðar Reykjavíkurborgar.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í gær.