Tekjur Play aukast en áfram tap af rekstri

Rekstur og umfang Play hefur nær tvöfaldast á milli ára. …
Rekstur og umfang Play hefur nær tvöfaldast á milli ára. Félagið flaug á öðrum ársfjórðungi þessa árs tæplega 2.500 flug á tíu flugvélum en rúmlega 1.300 flug á sex vélum í fyrra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tekjur flugfélagsins Play hafa rúmlega tvöfaldast á milli ára fyrstu sex mánuði ársins. Félagið er þó enn rekið með tapi, þó tapið nú sé minna en á sama tíma í fyrra. 

Þetta kemur fram í uppgjöri Play fyrir annan ársfjórðungs sem birt var í dag. Uppgjörið er að mestu í samræmi við spá félagsins sem var birt fyrr á þessu ári.

Tekjur Play á öðrum ársfjórðungi námu 73,1 milljón bandaríkjadala (9,7 milljarðar íslenskra króna), samanborið við 32,5 milljónir dala (4,3 milljarðar íslenskra króna) á sama tímabili í fyrra. Tekjurnar fyrstu sex mánuði ársins nema tæpum 106 milljónum dala, samanborið við 42 milljónir dala á sama tímabili í fyrra.

Í uppgjöri félagsins sést að tekjur af farmiðum námu um 74,5 milljón dölum á fyrri helmingi ársins en voru tæplega 32 milljónum dala á sama tíma í fyrra. Hliðartekjur hafa þó rúmlega þrefaldast á milli ára. Þær námu um 26,5 milljón dölum á fyrri helmingi þessa árs en níu milljón dölum í fyrra. Þá kemur einnig fram að tekjur af fraktflutningum námu nú tæplega tveimur milljónum dala en voru aðeins um 36 þúsund dalir í fyrra.

Umsvifin tvöfaldast á milli ára

Rétt er að hafa í huga að rekstur og umfang Play hefur nær tvöfaldast á því tímabili sem hér er fjallað um. Félagið flaug á öðrum ársfjórðungi þessa árs tæplega 2.500 flug á tíu flugvélum en rúmlega 1.300 flug á sex vélum í fyrra. Þá flutti félagið nú 392 þúsund farþega, samanborið við 180 þúsund farþega á sama tíma í fyrra.

Rekstarhagnaður (EBIT) á öðrum ársfjórðungi nam um 400 þúsund dölum (53 milljónir króna), samanborið við 14,4 milljón dala (1,9 milljarðar króna) tap á sama tíma í fyrra. Aftur á móti nemur rekstrartap félagsins á fyrstu sex mánuðum ársins um 17,3 milljón dölum, samanborið við 27,8 milljóna dala tap á sama tíma í fyrra.

Heildartap Play á fyrri helmingi þessa árs nemur um 4,1 milljón Bandaríkjadala, samanborið við 14,3 milljónir á öðrum ársfjórðungi árið 2022. Tapið fyrir fyrstu sex mánuði ársins nemur um 21,3 milljón dala, samanborið við 25,6 milljón dala tap á sama tíma í fyrra.

Handbært fé PLAY jókst á ársfjórðungnum og var í lok júní 54,5 milljónir bandaríkjadala (7,2 milljarðar íslenskra króna). Í uppgjörinu kemur fram að félagið hefur engar ytri vaxtaberandi skuldir.

Segir bókunarstöðuna sterka

 „Fjárhagsleg niðurstaða fór fram úr væntingum sem styður við fyrri spár um að ná rekstrarhagnaði á árinu 2023, sem er afrek fyrir ungt félag á sínu öðru heila starfsári,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Play, í tilkynningunni.

Hann segir einnig að meðaltekjur á farþega sem nýtir sér tengiflug félagsins í Norður-Ameríku hafi aukist á milli ára.

„Styrkur viðskiptamódels okkar er að geta hagað seglum eftir vindi með því að breyta fjölda flugsæta eftir mörkuðum í samræmi við aðstæður og eftirspurn á hverjum tíma. Við munum halda áfram að nýta okkur þann sveigjanleika sem við höfum yfir að ráða á meðan við þróum leiðakerfi okkar. Hliðartekjur halda áfram að aukast á sama tíma og bókunarstaðan fyrir komandi mánuði er sterk,“ segir Birgir.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK