Harpa eykur rekstrartekjur sínar

Heimsóknir í Hörpu voru 1,2 milljónir og er Harpa einn …
Heimsóknir í Hörpu voru 1,2 milljónir og er Harpa einn vinsælasti áfangastaður ferðamanna í Reykjavík, segir í tilkynningu félagsins. mbl.is/Árni Sæberg

Rekstrartekjur Hörpu jukust um 4,4% á síðasta ári og námu 1.663 milljónum króna. Rekstrarniðurstaðan var betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Bókfært tap nam 65,5 milljónum króna.

Þetta er meðal þess sem kom fram á aðalfundi félagsins þar sem ársuppgjör fyrir 2023 var kynnt.

Rekstrarhagnaður batnaði um 44%

Í fréttatilkynningu frá félaginu segir að gróska í viðburðarhaldi og stöðugleiki í rekstri hafi einkennt starfsemina í fyrra en haldnir voru tæplega 1400 viðburðir í Hörpu á síðasta ári. Það er um 10% vöxtur milli ára. 

Rekstrarframlög eigenda Hörpu, íslenska ríkið og Reykjavíkurborg, lækkuðu um 16,8% á milli ára eða 127,6 milljónir króna. Heildartekjur með framlögum eigenda námu samtals 2.293 milljónir króna. 

Þá segir í tilkynningu að rekstrargjöld hafi hækkað um 5,5% sem „verður að teljast viðunandi árangur í ljósi verðbólgu“.

„Rekstrarhagnaður árið 2023 (EBITDA) var 197,6 m.kr. og afkoma ársins að teknu tilliti til tekjuskatts, afskrifta og fjármagnsliða batnaði um tæp 44% en bókfært tap nam 65,5 m.kr. Eigið fé samstæðunnar nam 10.771 m.kr. í árslok 2023 og er eiginfjárhlutfallið 30%.“

Samfélags-og menningarleg áhrif áþreifanleg

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að efnahagsleg áhrif Hörpu séu ekki mjög sýnileg. Efnahagslegt fótspor og afleiddar tekjur starfseminnar hafa enn ekki verið kortlagðar með markvissum hætti en gjaldeyristekjur af alþjóðlegu viðburðahaldi eru verulegar.

„Samfélagsábyrgð Hörpu felst í því að stýra með ábyrgum hætti tónlistar- og ráðstefnuhúsi sem er í eigu þjóðarinnar. Samfélags- og menningarleg áhrif Hörpu eru vel sýnileg en efnahagslegu áhrifin eru óáþreifanlegri. Til að mynda koma tekjur af umfangsmiklu viðburðahaldi aðeins að litlum hluta fram í ársreikningi félagsins enda miðasöluviðburðir nærfellt allir á vegum annarra en Hörpu.“

Heildarvelta miðasölu vegna viðburða ársins 2023 í Hörpu nam um 1.256 milljónum króna.

Stjórn Hörpu.
Stjórn Hörpu. Ljósmynd/Aðsend

Stjórnin endurkjörin

Á aðalfundi félagsins var stjórn Hörpu endurkjörin. Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir rekstrarráðgjafi verður áfram formaður. Í stjórn sitja auk hennar Árni Geir Pálsson rekstrarráðgjafi, Gunnar Sturluson hæstaréttarlögmaður, Hrönn Greipsdóttir framkvæmdastjóri og Jón Þ. Sigurgeirsson efnahagsráðgjafi. Varamenn eru Arnfríður Sólrún Valdimarsdóttir og Emilía Ottesen.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka