Arsenal fór upp í annað sæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla með því að leggja nýliða Ipswich Town að velli með minnsta mun, 1:0, í gærkvöldi. Arsenal er með 36 stig í öðru sæti, sex stigum á eftir Liverpool sem á auk þess leik til góða. Ipswich er áfram í 19. sæti, fallsæti, með 12 stig. Kai Havertz skoraði sigurmark Arsenal um miðjan fyrri hálfleik þegar hann náði góðu skoti úr vítateignum eftir fyrirgjöf Leandros Trossards.
Brighton & Hove Albion og Brentford gerðu þá markalaust jafntefli í Brighton. Landsliðsmarkvörðurinn Hákon Rafn Valdimarsson spilaði sinn fyrsta leik fyrir Brentford í ensku úrvalsdeildinni þegar hann kom inn á sem varamaður á 36. mínútu í kjölfar þess að aðalmarkvörðurinn Mark Flekken meiddist.
Fyrr á tímabilinu hafði Hákon Rafn spilað tvo leiki fyrir liðið í enska deildabikarnum. Alls hefur nú 21 íslenskur leikmaður spilað leik í ensku úrvalsdeildinni. Hákon Rafn er aðeins annar íslenski markvörðurinn sem spilar í deildinni
...