Hefur góða afsökun til að fara til Mílanó og Capri

Helena Margrét Jónsdóttir listakona sýnir víða og er dugleg að …
Helena Margrét Jónsdóttir listakona sýnir víða og er dugleg að ferðast með verkum sínum. Ljósmynd/Aðsend

Listmálarinn Helena Margrét Jónsdóttir hefur ferðast víða í tengslum við listina en hún hefur tekið þátt í sýningum viða um heim, meðal annars í Mílanó, Capri, London, Peking, Dúbaí, Miami og Ibiza. Þrátt fyrir að ferðast víða segir Helena Margrét verkin hennar eiga það til að ferðast meira en hún. 

„Ég er að vinna að einkasýningu í Hospitalet hjá Carl Kostyal í Stokkhólmi sem verður næsta haust,“ segir Helana Margrét þegar hún er spurð að því hvaða hún er að fást við núna. 

Helena Margrét nam myndlist við Myndlistarskólann í Reykjavík, Konunglega Listaháskólann í Haag í Hollandi og útskrifaðist með BA gráðu í myndlist úr Listaháskóla Íslands. Hún áttaði sig á hvað hún saknaði Íslands mikið þegar hún var í náminu í Hollandi. 

„Ég bjó í Haag í Hollandi í eitt og hálft ár þegar ég var í listnámi. Ég hafði aldrei heyrt hollensku áður en ég flutti þangað, ég hefði sennilega endurhugsað það eitthvað ef ég hefði gert það. Ég heyrði hana fyrst í kallkerfinu á flugvellinum og fattaði strax að þetta væru möguleg mistök. Mér lá mikið á að flytja eitthvert út í nám og svo upplifði ég mig á endanum mjög einmana, saknaði íslenskunnar og að vera hluti af samfélagi og sameiginlegri menningu. Það er svo vanmetið að standa í röð og skilja hvað fólkið í kringum þig er að segja. Ég var fegin að komast aftur heim og eftir þetta held ég allavega ekki með Hollandi í neinum Evrópukeppnum eða heimsmeistaramótum.“

Helena Margrét lærði myndlist á Íslandi og í Hollandi.
Helena Margrét lærði myndlist á Íslandi og í Hollandi. Ljósmynd/Aðsend

Elskar borgarferðir

Hvernig ferðalögum ert þú hrifin af?

„Ég er mjög hrifin af borgarferðum, ég vil vera á hóteli og ég vil vera í jakka. Það er draumurinn. Mér finnst svo gaman að fara út þegar ég er með sýningu einhversstaðar, ég næ því ekki alltaf en ein af bestu ferðum sem ég hef farið í var þegar ég var að sýna á Ibiza fyrir tveimur árum og átti afmæli á sama tíma.“

Helena Margrét elskar að fara í borgarferðir. Hér er hún …
Helena Margrét elskar að fara í borgarferðir. Hér er hún í París.

Hvert er eftirminnilegasta ferðalag sem þú hefur farið í?

„Ég fór í þriggja vikna ferð með mömmu um Kína þegar ég var 13 ára. Við fórum í stærstu borgirnar og svo inn í land í minni bæi og inn í sveitirnar. Það ferðalag hafði mikil áhrif á mig og stækkaði heiminn svo mikið fyrir mér á þessum aldri, ég er alltaf að bíða eftir að komast aftur.“

Helena Margrét fór til Ibiza þar sem hún sýndi verk.
Helena Margrét fór til Ibiza þar sem hún sýndi verk. Ljósmynd/Aðsend

Ítalía heillar

Áttu uppáhaldsborg? 

„Ég ætla að segja Siena á Ítalíu þó ég hafi bara komið þangað einu sinni með pabba árið 2010. Það var frábær borg og frábær ferð. Ég týndist á torginu sem er eins og blævængur þannig það lítur eins út frá öllum hliðum og við fórum líka á frábæran veitingastað þar sem við sátum úti í húsasundi, það var bara tvennt á matseðlinum og réttirnir voru réttir út um eldhúsgluggann á húsinu við hliðina á. Frábært gnocchi.“

Hvar hefur þú fengið besta matinn erlendis?

„Það er alltaf Ítalía, sama hvert ég fer á Ítalíu er það alltaf besti maturinn. Galleríið sem ég er hjá er staðsett í Mílanó og á Capri þannig það er líka frábær afsökun til að fara. Í fyrra fór ég til suður Ítalíu í vinnuferð og ítalskur maður sem var að skutla mér á flugvöllinn lýsti því fyrir mér alla leiðina með báðum höndum meðan hann keyrði hvernig væri best að flysja tómata, búa til ólífuolíu og heimagert pasta. Ég fer alltaf heim frá Ítalíu með marga rétti í huganum sem ég ætla að reyna að endurgera og það er það fallega við ítalska matargerð, það tekst oftast. Maðurinn í bílnum sagði við mig að þetta snerist um að gera allt eins einfalt og í fáum skrefum og hægt er, þau saxa ekki hvítlaukinn heldur kremja hann bara í lófanum. Eins og hann sýndi mér í miðri beygju.“

Verk Helenu Margrétar eru meðal annars sýnd á Ítalíu.
Verk Helenu Margrétar eru meðal annars sýnd á Ítalíu. Ljósmynd/Aðsend

Langar að ferðast meira um Asíu

Áttu uppáhaldsstað á Íslandi?

„Snæfellsnesið, ég á margar góðar minningar þaðan, að skoða Hellnar, fá vöfflu á Fjöruhúsinu, gista á hótel Búðum og upp í bústað.“

Er einhver borg eða land sem veitir þér innblástur í listinni?

„Mér líður eins og að bara við það að fara eitthvert út, sérstaklega eitthvert sem ég hef ekki komið áður, kveikir á einhverjum nýjum stöðvum í heilanum. Ég fæ alltaf mikinn innblástur við að skipta um umhverfi. Mér finnst gaman að koma í söfn, en annars er líka bara alveg jafn gaman að skoða fólk.“

Helena Margrét fær innblástur þegar hún skiptir um umhverfi.
Helena Margrét fær innblástur þegar hún skiptir um umhverfi. Ljósmynd/Aðsend

Hvert dreymir þig um að fara? 

„Ég er búin að vera svo lengi á leiðinni til Japan eða Suður-Kóreu. Og aftur til Kína, ég er að sýna í Tang Gallery í Hong Kong í næsta mánuði en ég næ því miður ekki að fara út. Verkin mín ferðast meira en ég, ég væri til í að ná þeim.“

Ertu búin að skipuleggja spennandi ferðalög í sumar?

„Það er stórafmælisár hjá mömmu og pabba, ég var að koma úr æðislegri afmælisferð til Parísar með pabba, svo á mamma afmæli í sumar og þá erum við að spá í að fara til Rómar. Ég hef aldrei komið áður, ég væri til í að sjá verk eftir Caravaggio og panta ekta cacio e pepe. Og svo verð ég að komast í að minnsta kosti eina útilegu.“

Helena Margrét ásamt kærasta sínum, Hákoni Erni Helgasyni í París.
Helena Margrét ásamt kærasta sínum, Hákoni Erni Helgasyni í París. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert