Sitja enn í Karphúsinu og bjartsýni ríkir

Samninganefndir SA, Sameyki og FFR sitja enn í Karphúsinu.
Samninganefndir SA, Sameyki og FFR sitja enn í Karphúsinu. mbl.is/Eyþór

Samninganefndir SA annars vegar og Sameykis og SFF sitja enn á fundi við kjaraviðræður sem hófust á hádegi í dag.

Sigríður Margrét Oddsdóttir framkvæmdastjóri SA segir að búið sé að loka stórum atriðum í samningi þó enn standi eitthvað eftir. 

Sameyki og SFF hafa boðað við verkfallsaðgerðir á Keflavíkurflugvelli og eiga þær að hefjast 8. maí næstkomandi og standa til 20. maí. Verkföllin munu að óbreyttu standa tímabundið innan dags þessa daga. 

Öllum ljós ábyrgðin

„Á meðan viðræðurnar eru enn í gangi þá er von um að aðilar nái saman. Ég held að öllum aðilum sem sitja við borðið sé ljós sú ábyrgð sem hvílir á okkur. Við vonum að sú bjartsýni og samningsvilji sem við sáum hjá viðsemjendum í upphafi dags skili okkur í mark,“ segir Sigríður Margrét. 

Eru menn á lokametrunum með þetta?

„Viðræðurnar hafa staðið í nokkurn tíma og það var búið að loka þó nokkrum atriðum sem þurfti að loka. En viðræður eru enn um það sem stendur eftir,“ segir Sigríður en gefur ekkert upp um það hvernig gengur að ná saman um þau atriði.

Sigríður Margrét Oddsdóttir.
Sigríður Margrét Oddsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umhugsunarvert fyrir okkur öll  

Hún telur umhugsunarvert að fram undan séu boðaðar verkfallsaðgerðir á Keflavíkurflugvelli sem eru þær þriðju sem boðaðar eru á einu ári. 

„Við erum náttúrlega í þessum viðræðum í skugga þess að viðsemjendur okkar hafa boðað aðgerðir og skæruverkföll upp á Keflavíkurflugvelli með tilheyrandi röskun og fjártjóni fyrir farþega og fyrirtæki.

Ég held að það sé umhugsunarvert fyrir okkur öll að þetta er í þriðja skipti á einu ári sem gripuð er til aðgerða uppi á Keflavíkurflugvelli. En á meðan setið er þá er sannarlega von um að ná samningum,“ segir Sigríður Margrét.  

Hún segir ómögulegt að segja til um það hvenær fundi kunni að ljúka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert