„Endaði á að vera að morkna í eigin búbblu“

Telma Haraldsdóttir er ljósmyndari sem tekst á við sjálfsmyndina í …
Telma Haraldsdóttir er ljósmyndari sem tekst á við sjálfsmyndina í verkum sínum. Ljósmynd/Telma Har

Telma Haraldsdóttir er ljósmyndari sem vakið hefur athygli fyrir listrænar ljósmyndir sínar. Hún leikur sér með sjálfsmyndina og hvernig samfélagið sem og fortíð og nútíð mótar okkur. Hún segir það hafi verið mikilvægt fyrir sig að hafa trú á sjálfri sér og láta vaða. 

Hvernig komstu þangað sem þú ert í dag?

„Fyrir utan að elska að skapa og taka myndir og geta ekki stoppað þá er það með ákveðni, mikilli vinnu, húmor, hvatvísi og nettu kæruleysi af og til og ekki gefast upp.“

Hverjar voru helstu áskoranirnar á leiðinni?

„Að komast yfir mína eigin sjálfsímynd. Það sem hefur helst stoppað mig er mitt eigið sjálfstraust. Ég hafði svo litla trú á sjálfri mér að ég lét aldrei verða að neinu, þorði ekki að taka af skarið og bara láta vaða. Endaði á að vera að morkna í eigin búbblu þangað til ég gat ekki meira og skráði mig í Ljósmyndaskóla Reykjavíkur.“

Hvað gefur vinnan þér?

„Að skapa og vera í skapandi ferli gefur mér allt. Ég gæti ekki lifað án þess. Mér finnst ég óstöðvandi núna. Ég legg allt í það sem ég geri. Ég tek mest sjálfsmyndir og er oft að takast á við mína fortíð og nútíð og mitt nánasta umhverfi. Verkin mín eru mjög persónuleg en ég hef húmor fyrir sjálfri mér og fæ oft furðulegar hugmyndir um útfærsluna á þessum tilfinningum eða aðstæðum sem ég er að fást við.“

Hefur þú átt það til að ofkeyra þig, og ef svo er, hvernig hefur þú brugðist við því?

„Já, ég geri það reglulega og keyri mig í kaf. Finnst þetta bara svo gaman að ég á erfitt með að hætta að hugsa um næsta verkefni eða sýningu. Vinnubókin mín er full af hugmyndum þannig að mig vantar bara tímann til að skapa.“

„Ég verð samt oftast þreytt eftir sýningar en það er frekar stressandi en skemmtilegt ferli. Það er margt sem þarf að huga að. Það þarf að fara út fyrir þægindarammann og koma sér á framfæri og það er mér ekki eðlislægt. Það er hins vegar hluti af starfinu og ekkert við því að gera en að reyna að tækla það eins og maður getur. En það finnst mér mesta ofkeyrslan.“

„Börnin ná mér samt alltaf í slökun, stelpan mín er mikil kósý kona og svo er strákurinn minn mikið fyrir göngutúra þannig að ég slaka alltaf vel á inn á milli. Maðurinn minn er mikill peppari sem er gott að hafa eftir ofkeyrslu. Mér finnst líka algjört „boost“ að hitta góðar vinkonur.“

Telma er ein af þeim sem rekur Myrkraverk Gallerí sem …
Telma er ein af þeim sem rekur Myrkraverk Gallerí sem er á Skólavörðustíg. Ljósmynd/Telma Har

Hvernig skipuleggur þú daginn?

„Ég vakna mjög snemma og fæ mér kaffi og kem krökkunum í skólann. Ég þarf að vera mjög skipulögð og er oft búin að skipuleggja mig fram í tímann þannig dagurinn er oft mjög þéttur og gefst lítið svigrúm fyrir pásur. Ég er með vinnubók sem ég nota til að skrifa hugmyndirnar mínar og skissa þær líka upp, hvernig sjónarhorn á að vera, myndbyggingin, litir og hlutir sem ég ætla að nota. Ég skrifa þar líka dagsetningar á hvenær ég tek prufu skot, og hvenær ég tek sjálfa myndina og hvenær ég ætla að vinna myndina. Stundum fer ég og tek aðra.“

„Það er stundum í eftirvinnslunni sem ég sé að ég þarf að taka fleiri eða jafnvel alveg nýjar. Svo er ég oft með studíó bókað fyrir myndatökuna þannig það þarf að vera allt klárt og vel skipulagt fyrir tökuna sjálfa þannig þetta krefst mikils skipulags fram í tímann. Eins þarf að ákveða með búnaðinn, hvaða linsu og vél. Ég hef það svo gott núna að vera með aðgang í aðstöðuna í Ljósmyndaskólanum og lán á allskyns myndavélum og linsum. En ég þarf svo að vera komin heim klukkan fjögur til að taka á móti stráknum mínum. Oft nýti ég kvöldin í eftirvinnslu en ég sofna yfirleitt mjög snemma.“

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera þegar þú ert ekki að störfum?

„Þegar ég er ekki að skapa þá finnst mér skemmtilegast að hanga með fjölskyldunni. Við erum smá heimalningar og njótum samverunnar heima. Við erum líka mikið fyrir að fara í bústaðinn hans pabba og njóta náttúrunnar þar og hoppa í heita pottinn. Mér finnst líka mjög gaman að elda og baka en bara þegar ég hef nægjan tíma og þarf að vera með margt í gangi í eldhúsinu til að ég nenni því. Get ómögulega bara soðið pulsur þá missi ég athyglina og gleymi þeim í pottinum.“

Hvað er á döfinni?

„Nú er ég með sýningu í Myrkraverk Gallery en ég er ein af sjö listamönnum sem erum með þetta gallery á Skólavörðustíg 3. Sýningin Don’t look it’s Art er svona „pop up“ gægjusýning það er einungis hægt að sjá sýninguna inn um „göt“ á glugganum. Sýningin er partur af Barnamenningarhátíð og eru götin í hæð fyrir börn þannig fullorðnir þurfa að beygja sig örlítið. Sýningin samanstendur af sjálfsmyndum sem eru klipptar út og settar saman ásamt ýmsu efni, hárkollu og fleira. Ég vildi skapa lítinn draumkenndan heim sem vonandi gleður.

Ég ætla svo að taka þátt í Reykjavík Art book fair með Ljósmyndaskólanum sem verður í lok maí. Þá var ég svo valin til að vera með einkasýningu á Ítalíu í október með Magma Art Space og er mjög spennt fyrir því.

5 hlutir sem þú hefðir viljað vita um tvítugt?

  • Að tíminn líður hratt - njóta líðandi stundar
  • Að maður er ekki gamall um fertugt þó svo að lögin sem þú hlustaðir á séu komin á útvarpstöðina Retro.
  • Að þora að gera mistök og gera fullt af þeim
  • Að fagna litlu áföngunum í lífinu
  • Að ekki reyna að falla í hópinn, hafa minni áhyggjur af áliti annara
Ljósmyndir Telmu eru afar listrænar og óvenjulegar.
Ljósmyndir Telmu eru afar listrænar og óvenjulegar. Ljósmynd/Telma Har
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál