c

Pistlar:

13. maí 2024 kl. 13:58

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hringlandaháttur í útlendingamálum

Við Íslendingar höfum kosið að læra ekkert af reynslu nágrannalanda okkar í útlendingamálum. Hvað nákvæmlega veldur er erfitt að segja, hugsanlega er landinu núna stýrt af fólki sem hefur lítinn áhuga á sagnfræði eða hvernig utanaðkomandi breytingar geta móta samfélagið. Eða að það jafnvel trúi því ekki að slíkir hlutir skipti máli, þróunin verði að hafa sinn gang og við höfum hreinlega ekkert um það að segja. Tíðar breytingar á lögum um útlendinga staðfesta stefnuleysið og hringlandann hjá stjórnvöldum sem birtist í glundroða og ringulreið. Nú þegar rætt er um öryggisstefnu Íslands í tilefni 75 ára afmælis Nató kemur í ljós að það sem fólk óttast helst eru einhverskonar innri ógnir. Hvernig ætla stjórnvöld að bregðast við því?getto

Erlendir straumar og stefnur hafa fært okkur margt sem hefur haft jákvæð áhrif á menningu okkar og hingað hefur komið margt fólk sem hefur samlagast þjóðfélaginu vel og orðið góðir borgarar sem hafa lagt samfélaginu til mikið. En það er ekkert sjálfgefið að svo sé. Eins og oft hefur verið vikið að hér í pistlum er hið ríkulega velferðarkerfi okkar helsta vandamálið, eins öfugsnúið og það er. Í stað þess að vera þjóðfélag sem gefur fólki tækifæri þá er áherslan á að umvefja fólk inn í mjúka sæng velferðarkerfisins. Því miður sýnir reynsla nágrannalandanna að margir misskilja hvað í því felst og verða þiggjendur í þjóðfélagi þar sem þeir hafa ekkert lagt til.

Danir vöknuðu upp við vondan draum

Þetta uppgötvuðu frændur okkar Danir fyrir nokkrum árum þegar þeir gjörbreyttu stefnu sinni í útlendingamálum. Þá rann upp fyrir þeim að nálgun þeirra hafði búið til framandi þjóðfélög inni í þeirra eigin samfélagi. Gettó-væðingin sýndi að engin aðlögun hafði átt sér stað og nýir íbúar í landinu voru fyrst og fremst þiggjendur á hinu ríkulega velferðarkerfi Dana. Breytingin gerðist í nokkrum skrefum en áður höfðu stjórnmálamenn sem voru skilgreindir úti á kanti stjórnmálanna, svo sem Pia Merete Kjærsgaard, þáverandi formaður danska Framfaraflokksins, verið hundsaðir og taldir óstjórntækir. Að lokum kepptust aðrir flokkar við að taka yfir stefnu Framfaraflokksins sem missti tilverugrundvöll sinn fyrir vikið.familia

Auðvitað hafði almenningur í Danmörku tekið eftir að margt var í ólagi en þorði ekki að hafa orð á því vegna ótta við fordæmingu og að fá rasistastimpilinn á sig. Segja má að keyrt hafi um þverbakk í gengjastríðunum í Kaupmannahöfn 2017 þegar landsmenn áttuðu sig á að harðsvíruðustu glæpaklíkum landsins var stýrt úr innflytjendahverfunum, gettóunum svokölluðu. Á meðan konurnar þáðu velferðarbætur störfuðu karlarnir í glæpaklíku. Bardagar milli glæpaklíkanna Loyal To Familia og Brothas um fíkniefnamarkaðinn endaði á því að tveir lögreglumenn í einkennisbúningum voru skotnir. Þá var þolinmæði Dana þrotin. Lars Lökke Rasmussen, þáverandi forsætisráðherra Dana, mætti í Mjölenparken (þar sem efsta myndin er tekin) og kynnti gettó-lögin svokölluðu. Danskt samfélag snérist til varnar og horfðist í augu við að innflytjendastefnan hafði mistekist. Árið 2021 samþykkti síðan danska þingið lög sem heimiluðu að umsækjendur um alþjóðlega vernd væru sendir til ákveðins ríkis utan Evrópu á meðan þeir bíða niðurstöðu umsókna sinna. Lögunum var ætlað að vinna gegn fjölgun umsókna. Bretar samþykktu fyrir skömmu svipuð lög í sama tilgangi.

Vildu fylgja fordæmi Dana

Leiðtogi Loyal To Familia, Shuaib Khan, kallaði glæpaklíkuna bræðralag og gerði tilraun til að snúa almenningsálitinu sér í vil en skaðinn var skeður og +arið 2021 kvað hæstiréttur Dana upp þann tímamótaúrskurð að leysa bæri upp samtökin enda hefðu þau engan lögmætan tilgang samkvæmt stjórnarskránni. Nú eru liðsmenn samtakanna sendir úr landi að lokinni afplánun refsingar.

Margar Evrópuþjóðir horfðu til viðbragða Dana og árið 2018 vildu hollenskir stjórnmálamenn taka upp dönsku gettó-lögin. Borgarstjóri Antwerpen í Belgíu líkti þróun innflytjendahverfa við heimatilbúna aðskilnaðar-stefnu. Það var ein viðurkenningin á að innflytjendastefnan hafði mistekist. Emmanúel Macron Frakklandsforseti tók undir gagnrýni á gettóvæðingu samfélaga og hefur síðan reynt að ná tökum á innflytjendastefnu Frakklands sem hefur skapað gríðarleg samfélagsleg vandamál. Hratt vaxandi gyðingahatur (ekki andúð, heldur hreint og klárt hatur) er sérstakt vandamál og hefur leitt til umtalsverðs flótta gyðinga frá Frakklandi.immigration 3

Samspilið við velferðarkerfi landanna

Í ljósi alls þess var áhugavert að hlusta á viðtal Snorra Másson, í hlaðvarpinu Ritstjórinn, við David D. Friedman eðlisfræðing og einn af hugmyndafræðingum frjálshyggjunnar í dag. David fór í viðtalinu ágætlega yfir áhrif velferðarkerfisins á innflutning nýrra borgara sem frjálshyggjan hefur löngum verið jákvæð fyrir. Að mati Davids er helsti ókostur velferðarkerfisins sú staðreynd að það hindrar frjálst flæði fólks og vitnaði til sögu Bandaríkjanna. „Það sem virkaði svo vel í Bandaríkjunum var að þar var tekið við um milljón manns á ári inn í um hundrað milljón manna samfélag. Þarna á áratugunum í kringum fyrstu heimsstyrjöld, á tímanum þar sem amma mín og afi komu til Bandaríkjanna, var örari innflutningur fólks en á nokkru öðru tímabili í seinni tíma sögu. Þetta gekk upp vegna þess að Bandaríkin voru ekki velferðarríki. Þegar fólk kom til landsins varð það að fara að vinna til að halda sér uppi, þannig að flutningur þeirra kom ekki niður á þeim sem fyrir voru. Almennt séð, ef þú ert með opin landamæri, þá þarftu að hafa áhyggjur af því að fólk komi og vilji lifa á kerfinu. Ef þú ert hins vegar ekki með opin landamæri þarftu að horfast í augu við að fólki verði þá til dæmis haldið í fátækt í heimalöndum sínum, í stað þess að vera mun afkastameiri hér á Íslandi eða í Bandaríkjunum.“

Opin landamæri án velferðarkerfis

David varpar fram ákveðinni lausn í viðtalinu við Snorra sem verður að teljast heldur langsótt, einfaldlega vegna erfiðleika við útfærslu. Um það sagði David: „Það sem er hægt að gera, sem ég held þó að í það minnsta vestræn ríki séu ekki tilbúin til að gera, er velferðarríki fyrir þá sem búa hérna núna, en opin landamæri án velferðarkerfis fyrir innflytjendur. Ég lagði þetta til í bók minni The Machinery of Freedom fyrir meira en fimmtíu árum, að þú myndir hafa opin landamæri en að innflytjendur nytu ekki velferðarþjónustu. Á móti ættu skattar hjá þeim þá að vera lægri á móti enda fá þau ekki allan pakkann,“ segir Friedman. Snorri bendir á að svona nokkuð kynni að falla í grýttan jarðveg. „Já, þetta fer allt í bága við hugmyndafræðinni um velferðarríkið. Jafnréttishugsjónin þar er þó ekki alveg samkvæm sjálfri sér nema menn séu þá tilbúnir að halda uppi öllum heiminum, sem þeir eru ekki, af því að þeir geta það ekki. Þannig að þarna er ákveðin hræsni,“ svaraði Friedman að lokum. Þó að lausn Davids sé umræðunnar virði er erfitt að sjá að hún sé framkvæmanleg.