Erum þroskaðra lið en í fyrra

Mikel Arteta.
Mikel Arteta. AFP/Glyn Kirk

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri enska liðsins Arsenal, sat fyrir svörum á blaðamannafundi í hádeginu í aðdraganda leiks liðsins við Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni á morgun.

Arsenal er á toppi ensku úrvalsdeildarinnar með eins stigs forystu á Manchester City en City á þó einn leik til góða. Arsenal á þrjá leiki eftir en City fjóra.

Arsenal var einnig í harðri titilbaráttu við City á síðasta tímabili en þá hafði síðarnefnda liðið betur.

„Það sem er að gerast núna er öðruvísi. Við erum þroskaðra lið en í fyrra og getum vonandi gert betur en þá.“

Þá var Arteta spurður hvort hann treysti sér til að horfa á leik Manchester City og Wolves seinni partinn á morgun.

„Ef ég get horft, þá mun ég horfa. Ég elska að horfa á stóra leiki þar sem mikið er undir.“

Ítalski miðjumaðurinn Jorginho var keyptur til Arsenal frá Chelsea í janúar í fyrra en samningur hans við félagið rennur út í sumar. Arteta vonast til að halda honum.

„Ég myndi elska það að geta haldið honum. Hann veit það og félagið er á sömu skoðun og ég. Hann gerir okkur betri og þess vegna höfum við áhuga á að halda honum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert