Komið nóg af þessum heimskulega orðrómi

Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Chelsea.
Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Chelsea. AFP/Darren Staples

Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Chelsea, er kominn með nóg af getgátum enskra fjölmiðla um framtíð hans hjá enska félaginu.

Pochettino tók við starfinu fyrir tímabilið og skrifaði undir tveggja ára samning.

Chelsea er í áttunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar og hefur ekki verið ofar nær allt tímabilið þrátt fyrir að hafa eytt fúlgum fjár í eftirsótta leikmenn undanfarin ár og því hefur framtíð Pochettinos verið töluvert í umræðunni.

Verðið að spyrja félagið

„Ég vil segja að það er komið nóg af svona orðrómi. Ef ég á eitt ár eftir af samningi mínum hér og enginn segir neitt við mig þá býst ég við því að ég verði hér áfram.

Ekki nema tímabilið klárist og einhver segi við mig: „Bless.“ Því við vitum þetta ekki í augnablikinu. Ég geri ráð fyrir því að ég eigi eitt ár eftir af samningi mínum og að ég verði hér.

Það er komið nóg af þessum heimskulega orðrómi. Þið verðið að spyrja félagið hvort þeir vilji halda mér eður ei í stað þess að skrifa hluti sem ekkert vit er í,“ sagði Pochettino á fréttamannafundi í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert