Úlfarnir kaupa lánsmanninn frá City

Tommy Doyle í kapphlaupi við Haji Wright, leikmann Coventry, í …
Tommy Doyle í kapphlaupi við Haji Wright, leikmann Coventry, í leik liðanna í enska bikarnum í vetur. AFP/Paul Ellis

Enska knattspyrnuliðið Wolverhampton Wandererers hefur keypt miðjumanninn Tommy Doyle frá Manchester City. 

Talið er að kaupverðið séu tæplega fimm milljónir punda en skiptin ganga í gegn 1. júlí þegar félagsskiptaglugginn opnar á Englandi. 

Doyle hefur verið á láni hjá Úlfunum á tímabilinu en hann hefur komið við sögu í 20 leikjum í ensku úrvalsdeildinni. Hann hefur einnig farið á lán til Hamburger SV, Cardiff og Sheffield United frá City en mun nú verða leikmaður Úlfanna.

Úlfarnir sigla lygnan sjó í ensku úrvalsdeildinni en Gary O'Neal hefur gert virkilega góða hluti á tímabilinu. Svo virðist vera sem aðilar innan félagsins séu komnir á fullt við að undirbúa næsta tímabil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert