Arsenal með fjögurra stiga forskot

Bukayo Saka og Dango OUttara eigast við í dag.
Bukayo Saka og Dango OUttara eigast við í dag. AFP/Justin Tallis

Arsenal er með fjögurra stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta eftir sigur á Bournemouth á heimavelli, 3:0. Manchester City á tvo leiki til góða á Arsenal og getur því náð toppsætinu af Lundúnaliðinu.

Arsenal var mikið sterkari aðilinn allan fyrri hálfleikinn og skapaði sér fjölmörg færi til að skora fyrsta markið.

Hvað eftir annað skutu Arsenal-menn í varnarmenn Bournemouth úr góðum færum í teignum og þegar það tókst að koma boltanum framhjá þeim var Mark Travers í marki Bournemouth erfið hindrun.

Eftir hvert færið á fætur öðru kom fyrsta markið loks á lokamínútu fyrri hálfleiks. Kai Havertz slapp þá inn fyrir vörn Bournemouth og Travers tók hann niður innan teigs. Bukayo Saka fór á punktinn, skoraði af öryggi og sá til þess að Arsenal fór með 1:0 stöðu í hálfleikinn.

Seinni hálfleikurinn var jafnari en sá fyrri og skiptust liðin á að eiga fína kafla. Arsenal nýtti sína betur því Leandro Trossard gerði annað markið á 70. mínútu er hann kláraði mjög vel í teignum eftir sendingu frá Declan Rice.

Antoine Semenyo skoraði fyrir Bournemouth skömmu síðar og Gabriel kom boltanum glæsilega í mark gestanna nokkrum mínútum eftir það. Mörkin voru hins vegar dæmd af. Mark Bournemouth fyrir smávægilegt brot á David Raya í marki Arsenal og mark Gabriel fyrir rangstöðu.  

Þriðja mark leiksins kom þó og það gerði Declan Rice í uppbótartíma er hann kláraði vel úr þröngu færi eftir sendingu frá Gabriel Jesus og sannfærandi sigur Arsenal varð raunin.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Arsenal 3:0 Bournemouth opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti átta mínútur í uppbótartíma. Hvers vegna veit ég ekki alveg.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert