Flóknari vara en bílalán

Gröfur til sýnis hjá innflytjanda. Lánshlutfall og lánstími getur verið …
Gröfur til sýnis hjá innflytjanda. Lánshlutfall og lánstími getur verið breytilegur. Styrmir Kári

Að fjármagna atvinnutæki er ekki jafnt klippt og skorið og að taka bílalán. Arnar Snær Kárason er hópstjóri fyrirtækjaþjónustu Lykils fjármögnunar en þar er boðið upp á fjármögnun hvers kyns véla og tækja sem notuð eru í atvinnurekstri, frá hinum ýmsu smátækjum upp í stærstu beltagröfur og trukka.

„Bílalán eru annars eðlis enda einkabílar stöðluð vara. Lán vegna kaupa á vinnuvélum byggja á öðrum forsendum þar sem meta þarf hvert tilvik fyrir sig. Verðum við m.a. að taka með í reikninginn líftíma tækisins, stöðuna á rekstri viðskiptavinarins og viðskiptsögu hans, en af því ræðst t.d. hversu hátt veðhlutfall við getum boðið og hve langan lánstíma,“ segir Arnar og bætir við að kaupendur vinnuvéla leiti oft tilboða hjá lánafyrirtækjunum til að finna hagstæðustu kjörin.

Hjálpast að í óvæntum áföllum

Stundum er ferlið einfalt og fljótlegt en stundum getur það tekið meiri tíma og segir Arnar að góð viðskiptasaga vegi þungt við matið hjá Lykli. „Við leitum líka upplýsinga hjá Creditinfo og skoðum lánshæfismat umsækjandans og skuldastöðu auk þess að fara yfir ásreikninga. Einnig er gagnlegt að skoða viðskiptaáætlanir lántakandans og aðstæður í atvinnulífinu kunna líka að koma við sögu. Reynum við að fylgjast með hvað er að gerast á markaðinum í þeim atvinnugreinum sem við sinnum og svipumst um eftir merkjum um upp- eða niðursveiflur,“ útskýrir Arnar og bætir við að það geti verið kostnaðarsamt fyrir alla sem að málinu koma ef mikil fjárfesting á sér stað í geira sem síðan færist úr uppgangsskeiði yfir í djúpa lægð.

„Vitaskuld geta líka alltaf komið upp fullkomlega ófyrirsjáanlegar sveiflur og er nýjasta dæmið það áfall sem ferðaþjónustan varð fyrir í kórónuveirufaraldrinum. Höfum við t.d. tekið þátt í að fjármagna rútur í fjölda ára og hefði enginn getað spáð fyrir um þá niðursveiflu sem varð, en hún gerði það að verkum að allt í einu var engin þörf fyrir rútur og þær ekki söluvara. En þegar viðskiptavinir okkar verða fyrir þannig skakkaföllum reynum við vitaskuld í lengstu lög að finna með þeim heppilega lausn enda þjónar það báðum aðilum best ef það er hægt að veita tímabundið svigrúm á meðan erfiðleikatímabilið gengur yfir.“

Kjörin sem bjóðast geta verið mjög breytileg en Arnar segir að fjármögnun atvinnutækja hjá Lykli nemi alla jafna á bilinu 50 til 80% af kaupverði þeirra. Lánstíminn er yfirleitt styttri en á bílalánum og segir Arnar að uppgreiðslutími lánanna sé oftast frá 3 upp í 7 ár. „Taka þarf líftíma tækisins með í reikninginn og getur t.d. ekki verið skynsamlegt að veita lán til lengri tíma en fimm ára vegna kaupa á vöruflutningabíl sem verður í stanslausri notkun á misgóðum vegum um allt land enda verða slit og skemmdir farin að láta til sín segja eftir fimm ára notkun.“

Hljóðið gott en bið eftir afhendingu

Það veitir ágætisvísbendingu um horfurnar í íslensku hagkerfi hversu mikið er að gera hjá Arnari og samstarfsfélögum hans. Þegar fyrirtækin eru svartsýn slá þau því á frest að fjárfesta í nýjum vélum og ökutækjum en ef þeim þykir framtíðin björt byrja þau að leggja drög að kaupum og fjármögnun nýrri og fleiri atvinnutækja. Spurður um ástandið þessi misserin segir Arnar að ágætisgangur sé í fyrirspurnum og lántökum fyrirtækja. „Við finnum fyrir því að það virðist vera nóg fram undan og hljóðið er gott í þeim atvinnugreinum sem við vinnum mest með. Vélasalarnir láta líka vel af sér þegar kemur að pöntunum fyrir þetta ár. Glíma seljendurnir helst við þann vanda að víða hefur orðið röskun á starfsemi framleiðenda og ýmist að skortur er á atvinnutækjum eða óvenjulöng bið eftir afhendingu. Gripu margir til þess ráðs að ganga snemma frá pöntunum og kláruðu jafnvel á síðasta ári pantanir fyrir tæki sem á að afhenda í ár. Eru kaupendur í þeim sporum að þurfa kannski að bíða allt fram til 2023 eftir atvinnutækjum sem þeir panta í dag.“ ai@mbl.is

Arnar Snær Kárason
Arnar Snær Kárason
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: