Porsche 911 Dakar til sýnis á laugardag

Porsche Dakar á sér marga aðdáendur enda öktæki í sérflokki.
Porsche Dakar á sér marga aðdáendur enda öktæki í sérflokki.

Bílabúð Benna efnir til sýningar á laugardag þar sem gestir geta fengið að líta augum fjóra Dakar-bíla frá Porsche.

Í tilkynningu frá bílaumboðinu segir að viðburðurinn sé haldinn til að fagna því að 40 ár eru liðin síðan sérútbúinn Porsche 911 vann Dakar-rallíið.

Dakar-keppnin er ein erfiðasta utanvegar-kappaksturskeppni sem finna má og mætti Porsche þar til leiks árið 1984 með bíl með meiri veghæð, betri fjöðrun og sterkari yfirbyggingu en venjulegar 911-bifreiðar. Að auki var bíllinn með fjórhjóladrifi og flaug því yfir sandöldur, hæðir og hóla. Porsche sigraði keppnina og var það í fyrsta sinn sem sportbíll kom fyrstur í mark, en afrekið þótti hafa mikla þýðingu fyrir þýska bílaframleiðandann og varð félaginu góð kynning á heimsvísu.

Stutt er síðan Porsche setti á markað nýjan 911 Dakar bíl. Seldist þessi sérútgáfa af bílnum upp á augabragði enda framleiðslumagnið takmarkað. Fjögur eintök verða í sýningarsal Porsche á Krókhálsi 9 og stendur sýningin yfir frá kl 12 til 16.

mbl.is