Beðnir um að koma ekki á einkaþotum

Ætli Joe Biden Bandaríkjaforseti muni fylgja tilmælunum?
Ætli Joe Biden Bandaríkjaforseti muni fylgja tilmælunum? AFP

Þjóðarleiðtogar heims sem viðstaddir verða útför Elísabetar II Bretadrottningar hafa verið hvattir til að fljúga með áætlunarflugi, ekki einkaþotum, til Bretlands og taka svo rútu til að komast í útförina. 

Ráðgert er að um 500 erlendir þjóðarleiðtogar verði viðstaddir útförina sem gerð verður frá Westminster Abbey á mánudaginn næsta, 19. september. 

„Það er búið að útfæra öll smáatriði til þess að láta þetta ganga eins vel og mögulegt er fyrir þau sem verða viðstödd,“ sagði heimildamaður AFP innan breska utanríkis- og þróunarráðuneytisins.

„Geturðu ímyndað þér Joe Biden í strætó?“

Bandaríski fjölmiðillinn Politico greindi frá því að útfarargestir hefðu verið hvattir til að nota hvorki sínar eigin bifreiðar til að komast í Westminster Abbey á mánudag né þyrlur.

Heldur eigi þeir að ferðast með rútum, sem munu fara frá ákveðnum stað í borginni, til Westminster Abbey. 

Tilmælin til þjóðarleiðtoga heims hafa vakið athygli. „Geturðu ímyndað þér Joe Biden í strætó?“ er haft eftir embættismanni sem vinnur í ónefndu sendiráði í Lundúnum. 

Bandaríkjaforsetar ferðast vanalega með einkaþotunni Air Force One milli landa, sem er af gerðinni Boeing 747, og síðan með Marine One-þyrlunni. Í heimsóknum í útlöndum ferðast forsetinn líka yfirleitt með glæsibifreið sem fengið hefur nafnið Skepnan (e. The Beast). 

Bandaríska sendiráðið í Lundúnum hefur ekki svarað spurningum AFP um fyrirhugaðan ferðamáta forsetans. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert