Varð heilluð af tegundinni átta ára gömul

Móheiður Guðmundsdóttir varð heilluð af tegundinni Cavalier King Charles Spaniel …
Móheiður Guðmundsdóttir varð heilluð af tegundinni Cavalier King Charles Spaniel þegar fjölskylduhundurinn Táta kom inn í líf hennar en þá var hún átta ára gömul. Samsett mynd

Móheiður Guðmundsdóttir, oftast kölluð Móa, var átta ára gömul þegar fjölskyldan eignaðist hundinn Tátu sem var af tegundinni Cavalier King Charles Spaniel. Móa varð strax heilluð af tegundinni og á ljúfar minningar af Tátu.

Móa þurfti því ekki að hugsa sig tvisvar um þegar hún frétti af Cavalier-goti fyrir rúmum tveimur árum síðan og í kjölfarið rættist langþráður draumur hennar um að eignast annan hund þegar Lotta kom inn í líf hennar. 

„Lotta er kærleiksrík, skemmtileg, forvitin og uppátækjasöm og ég gæti ekki óskað mér betri félaga. Hún hefur mikinn áhuga á fuglum, elskar snjó og mat og þykir gaman að fá að horfa út um bílrúðuna þegar við erum á ferðinni,“ segir Móheiður.

Lotta og Móa eru miklar vinkonur og eiga fallegt samband.
Lotta og Móa eru miklar vinkonur og eiga fallegt samband.

Áttir þú gæludýr þegar þú varst yngri?

„Þegar ég var átta ára þá eignuðumst við fjölskyldan yndislega Cavalier-tík sem hét Táta svo ég ólst upp með hundi af þessari tegund. Þegar ég var barn var ég líka með kanínur, hest, páfagauk og gullfiska svo það var nóg að gera.“

Móa ásamt hundinum Tátu sem hún ólst upp með.
Móa ásamt hundinum Tátu sem hún ólst upp með.

Hvernig lágu leiðir ykkar saman?

„Mig hafði dreymt um að eignast annan hund í nokkur ár en ég vildi bíða þar til að tímasetningin væri rétt og ég væri í aðstöðu til þess að sinna hundinum vel og hefði til þess nægan tíma. Núna starfa ég sjálfstætt sem hentar mjög vel með hundalífinu.

Vinkona mín vissi að mig langaði í hund og hún frétti af goti hjá Hvammsheiðarræktun og lét mig vita. Þegar ég hafði samband við ræktandann var Lotta eini hvolpurinn úr gotinu sem átti eftir að ráðstafa. Hún var minnst af hvolpunum og var á tímabili ekki nógu dugleg að nærast svo ræktandinn vissi ekki hvort hún myndi braggast. En það gerði hún sem betur fer og er í dag mikið matargat. Dagurinn sem ég sótti hana er ógleymanlegur, ég var svo stolt og glöð yfir að hafa eignast hana.“

Móu hafði lengi langað til að eignast annan hund en …
Móu hafði lengi langað til að eignast annan hund en ákvað að bíða eftir réttu tímasetningunni.

Hvað var það sem heillaði þig við tegundina?

„Cavalier eru blíðir og góðir hundar og mjög félagslyndir. Svo eru þeir líka duglegir. Þó svo að Lotta sé smá þá er hún ótrúlega seig og hefur komið með mér í alls konar útivist, fjallgöngur og í gönguskíðaferðir.“

Móa og Lotta eru duglegar að stunda útivist.
Móa og Lotta eru duglegar að stunda útivist.

Hverjir eru kostirnir við að eiga hund?

„Lotta kemur mér til þess að brosa og hlæja á hverjum degi og er einstaklega traustur vinur. Hún er alltaf til í að vera með mér, sama hvernig mér líður eða hvað ég er að gera. Hún hefur líka kennt mér margt. Þegar Lotta aðhefst eitthvað, t.d. að naga bein, þá setur hún allan sinn fókus í það verkefni og gerir það með öllum líkamanum. Mér þykir það svo fallegt, hvað hún er einbeitt og í mikilli núvitund. Ég ætla mér stundum að gera margt í einu og nýt þá einskis til fulls svo mig langar til þess að læra þetta af henni.“

Móa segir Lottu hafa kennt sér margt á síðustu tveimur …
Móa segir Lottu hafa kennt sér margt á síðustu tveimur árum.

En ókostirnir?

„Lotta fer mikið úr hárum og hún er með frekar síðan feld svo á veturna þegar er blautt þarf hún oft að fara í bað. Ég lít samt ekki beint á þetta sem ókosti, þetta eru bara hlutir sem fylgja því að eiga hund. Ég keypti mér bara ryksuguvélmenni og málið dautt.“

Á veturna þarf Lotta að fara oft í bað þar …
Á veturna þarf Lotta að fara oft í bað þar sem hún er með síðan feld.

Hver er ykkar daglega rútína?

„Lotta er kelin á morgnanna og hefur hvern dag á því að teygja úr sér, gera sig eins langa og hún mögulega getur, og vill þá fá gott klór. Svo eru dagarnir okkar frekar misjafnir en Lotta þarf á hreyfingu að halda svo henni líði vel svo við förum alltaf í góða göngutúra.“

Móa og Lotta fara í góða göngu saman á hverjum …
Móa og Lotta fara í góða göngu saman á hverjum degi.

Hafið þið deilt einhverri eftirminnilegri lífsreynslu eða skemmtilegum minningum?

„Í fyrrasumar fórum við fjölskyldan í Lónsöræfi en Lotta kom með okkur þangað og stóð sig virkilega vel í fjallgöngum á hálendinu.“

Móa á skemmtilegar minningar með Lottu frá ferðalögum fjölskyldunnar í …
Móa á skemmtilegar minningar með Lottu frá ferðalögum fjölskyldunnar í Lónsöræfi.

Er hundurinn með einhverjar sérþarfir eða sérviskur?

„Lotta er ekki beint sérvitur. Hún á það að vísu til að fela bein og dót hér og þar og vandar sig mikið við að finna réttu felustaðina. Ef hún verður vör við að einhver fylgist með henni þá byrjar hún upp á nýtt til þess að halda þessu öllu háleynilegu. Ég finn dótið hennar oft á ólíklegustu stöðum.

Lotta er stemningshundur, hún er góð í því að finna notalega staði og koma sér vel fyrir. Ef einhvers staðar er sólargeisli þá leggst hún gjarnan þar og lætur sér líða vel.“

Lotta veit fátt betra en að koma sér vel fyrir …
Lotta veit fátt betra en að koma sér vel fyrir í sólinni.

Hvernig gengur að skipuleggja frí með dýr á heimilinu?

„Ég er svo heppin að Lotta á góða vini sem eru til í að passa hana þegar ég fer erlendis. En ég tek hana yfirleitt með mér þegar ég ferðast innanlands, hún er frábær ferðafélagi. Í febrúar fórum við til Vestmannaeyja og í vor ætlum við í ferðalag um Vestfirði sem ég veit að hún mun njóta.“

Að sögn Móu er Lotta frábær ferðafélagi og hafa þær …
Að sögn Móu er Lotta frábær ferðafélagi og hafa þær ferðast heilmikið innanlands.

Einhver góð ráð til annarra gæludýraeigenda?

„Eitt besta ráð sem ég hef sjálf fengið var á hvolpanámskeiði með Lottu. Þar var mér kennt að hundar fá mest út úr gönguferðum þegar þeir fá að þefa og nota nefið. Ég leyfi því Lottu að stjórna ferðinni þegar við förum út að ganga, þetta er hennar stund.“

Móa mælir með því að fara á hvolpanámskeið!
Móa mælir með því að fara á hvolpanámskeið!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert