Dystópískir heimar Heru

Hera Hilmarsdóttir er rísandi stjarna í heimi kvikmynda.
Hera Hilmarsdóttir er rísandi stjarna í heimi kvikmynda.

Hera Hilmarsdóttir hlýtur að vera orðin þekktasta leikkona Íslands eftir að hafa leikið á móti stórleikaranum Ben Kingsley í An Ordinary Man og nú síðast í ævintýramyndinni Mortal Engines þar sem hún fer með aðalhlutverkið. Kvikmyndin var frumsýnd fyrir viku hér á landi og fellur í flokk með „big budget“ kvikmyndum á mælikvarða Hollywood, framleiðslukostnaður við hana talinn á bilinu 100 til 150 milljónir dollara.

Annríkið er mikið hjá Heru en hún gefur sér þó tíma til að spjalla við blaðamann um Mortal Engines og önnur verkefni. Hún er fyrst spurð að því hvort brjálað hafi verið að gera hjá henni undanfarið. „Já, þetta er búið að vera svolítið brjálað síðustu vikur en það er bara ákveðin upplifun,“ segir Hera létt í bragði.

– Endalaus viðtöl, frumsýningar og kynningar út af myndinni, þá?

,,Já og líka ferðalög milli heimsálfa. En þetta er gaman,“ svarar hún.

– Finnurðu mun á havaríinu í kringum þessa mynd og myndina sem þú lékst í á móti Ben Kingsley?

„Já, já, þetta er allt öðruvísi. Sú mynd var meira indímynd, sjálfstæð og minni en þetta er miklu meira batterí,“ svarar Hera.

– Og það er meira undir núna?

„Já, og af því það er stúdíó á bak við þig og þetta er þannig mynd þá fer maður á miklu fleiri „junket“ þar sem maður situr fyrir svörum og það koma kannski 50 blaðamenn, röð eftir röð,“ segir Hera. Slík hópviðtöl hafi verið haldin víða undanfarið og gaman líka að heyra hvað fólki finnst um myndina. „Maður er alltaf að segja það sama, aftur og aftur,“ segir Hera sposk um þessi viðtöl og að spurningarnar séu líka oft þær sömu.

Hera á frumsýningu Mortal Engines í Los Angeles 5. desember …
Hera á frumsýningu Mortal Engines í Los Angeles 5. desember með leikkonunum Jihae og Leila George. AFP

Borgir á hjólum

– Þetta er rosalega skrítin saga, sú sem rakin er í Mortal Engines. Þarna eru borgir á hjólum, eða hvað? Þú ert örugglega búin að segja hundrað sinnum frá henni en ertu til í að rekja söguna í stuttu máli einu sinni enn?

,,Já. Það er spurning hversu mikið ég á að einfalda hana en hún gerist í heimi þar sem Jörðin hefur verið eyðilögð í stríði og flestir búa í borgum sem hreyfast, eru á hjólum, svo þeir geti veitt aðrar borgir og haldið sér á lífi, komist yfir auðlindir þeirra og fólk og þess háttar. Í þessari veröld er stelpa sem ætlar að drepa mann sem myrti móður hennar þegar hún var barn,“ segir Hera en hún leikur umrædda stelpu, Hester. Á ferðum sínum kynnist Hester sjálfri sér betur og nýju fólki, segir Hera og að Hester sogist inn í mun stærra verkefni, að bjarga Jörðinni.

– Þessi mynd er eins ólík An Ordinary Man og hugsast getur!

Hera hlær að athugasemdinni og segir það rétt athugað en fyrir þá sem ekki vita segir An Ordinary Man af fyrrverandi hershöfðingja sem eftirlýstur er fyrir stríðsglæpi. Hera leikur þernu sem hann ræður til sín og mætti segja að kvikmyndin sé að miklu leyti stofudrama. „En Mortal Engines er mikill hasar og sjónrænt er hún alveg klikkuð, algjör andstæða,“ bætir Hera við.

Undirbúningur mest andlegur

Hera segir Hester ekki hasarhetju af þeirri gerð sem hlotið hafi mikla þjálfun, hún sé ekki þjálfaður morðingi eða bardagakvendi. „Það var mjög mikilvægt fyrir mér að tilfinningin fyrir henni væri sú að hún væri ótrúlega reið, venjuleg ung kona með markmið. Hún er ekki týpan sem er búin að vera að þjálfa sig upp rosalega lengi,“ segir Hera. Nóg sé af slíkum hetjum í kvikmyndum sem krefjist þess að leikarar fari í stranga líkams- og hreyfiþjálfun. „Minn undirbúningur var meira andlegur en líkamlegur og ég var í ágætisformi, þannig séð, til að hlaupa en ég þurfti aðallega að læra að klifra í klettum og nota hnífa,“ segir Hera kímin.

– Hversu stór hluti myndarinnar er leikinn fyrir framan grænskjá, „green screen“?

„Miklu minna en þú heldur. Mér finnst svo geggjað við þessa mynd að við vorum með yfir 120 sett og þá meina ég ekki bara einhverjar smáar leikmyndir. Til dæmis er borg sem heitir Airhaven í myndinni og er uppi í skýjunum og það var bara byggður lítill bær sem hékk uppi í loftinu í einu stúdíóinu,“ segir Hera og nefnir annað dæmi, að eftirlíking hafi verið byggð af innanverðri St. Paul's-dómkirkjunni í Lundúnum. Margt hafi svo auðvitað þurft að teikna í tölvu, eins og gefur að skilja.

Skemmtilegt og krefjandi

– Hvernig var að leika í myndinni, var þetta gaman?

„Þetta var mjög gaman, erfitt en mjög gaman. Ég var úti í sex mánuði, á Nýja-Sjálandi og það er æðislegt að vera þar. Fólkið þar er svo yndislegt og það er svo gaman að geta unnið í svona verkefni þarna, rosalega margt hæfileikafólk sem hefur unnið saman í áratugi og er eins og maskína,“ svarar Hera. Verkefnið hafi verið skemmtilegt og krefjandi.

Mortal Engines er framleidd af leikstjóranum Peter Jackson, sem þekktastur er fyrir að leikstýra þríleiknum Hringadróttinssögu, og eiginkonu hans, Fran Walsh. Leikstjóri kvikmyndarinnar er Christian Rivers sem hefur starfað sem storybord-teiknari og við tæknibrellur og tölvuteiknun í kvikmyndum Jackson, allt frá árinu 1992. Rivers hlaut Óskarsverðlaun fyrir sjónbrellur í King Kong, kvikmynd Jackson, en Mortal Engines er fyrsta kvikmynd hans í fullri lengd.

Einn af mótleikurum Heru í myndinni er Hugo Weaving sem hlaut heimsfrægð fyrir leik sinn í Matrix-þríleiknum, lék þar illmenni mikið. Hefur hann upp frá því nær eingöngu leikið illmenni en Hera segir hann þó ljúfan sem lamb. „Hugo er frábær, virkilega skemmtilegur og góður,“ segir hún.

Blint mannkyn

– Hvað er næst á dagskrá hjá þér?

„Ég er að leika í seríu fyrir Apple sem heitir See. Þetta er fyrsta svona serían sem Apple gerir og verður í streymisþjónustu,“ segir Hera. Höfundur þáttanna er Steven Knight sem skrifaði m.a. sjónvarpsþættina Peaky Blinders og handrit kvikmyndarinnar Eastern Promises. „Francis Lawrence sem leikstýrði t.d. Hungurleikunum er að leikstýra,“ segir Hera, „og þetta er alveg klikkað konsept og rosaleg undirbúningsvinna búin að vera fyrir þættina. Í þeim er mannkynið orðið blint og það er bara allt annað konsept að vera í veröld þar sem enginn sér.“

Af öðrum leikurum sem leika í þáttunum má nefna Jason Momoa og Alfre Woodard og af umfjöllun á netinu má sjá að mikið er lagt í þættina sem verða átta talsins. Tökur á þeim hófust í ágúst og segist Hera hafa verið að leika í þeim milli þess sem hún hefur flakkað um heiminn að kynna Mortal Engines. „Á endanum skiptir meira máli að vinna en að tala um vinnuna,“ segir Hera og hlær, vísar í hinn mikla fjölda viðtala sem hún hefur farið í að undanförnu, þar með talið það sem hér er á enda runnið.

Hér má sjá stiklu fyrir Mortal Engines:

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er ástæðulaust að fyllast sektarkennd út af þeim hlutum sem ekki eru í þínu valdi að breyta. Reyndu að sýna lipurð og samstarfsvilja og þá muntu ná takmarki þínu.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lucinda Riely og Lucinda Riley
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Lotta Luxenburg
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er ástæðulaust að fyllast sektarkennd út af þeim hlutum sem ekki eru í þínu valdi að breyta. Reyndu að sýna lipurð og samstarfsvilja og þá muntu ná takmarki þínu.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lucinda Riely og Lucinda Riley
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Lotta Luxenburg