„Oh, óheppni“

Elísabet drottning í garði Buckingham hallar á þriðjudaginn
Elísabet drottning í garði Buckingham hallar á þriðjudaginn AFP

Náðst hefur myndband af Elísabetu Englandsdrottningu þar sem hún segir að kínverskir embættismenn hefðu verið „mjög dónalegir“ í opinberri heimsókn Xi Jinping, forseta Kína, á síðasta ári.

Var drottningin að ræða við yfirmann lögreglu í garði Buckingham hallar þegar að hún lét ummælin falla. Þetta kemur fram í frétt BBC þar sem hægt er að sjá myndbandið.

Upptakan náðist á þriðjudaginn þegar að Elísabet var kynnt fyrir lögreglustjóranum Lucy D'Orsi og er drottningunni sagt að D'Orsi hafi séð um öryggismál kínverska forsetans þegar hann heimsótti Bretland í október á síðasta ári.

Heyrist drottningin bregðast við með því að segja „Oh, óheppni“ (Oh, bad luck).

Má heyra þegar drottningunni er sagt að Kínverjarnir hefðu gert „alvarlega lítið úr“ D'Orsi en að henni hafi tekist að standa í lappirnar og halda stjórn. Segist drottningin vita að þetta hafi verið erfiður tími fyrir D'Orsi og bætir við að Kínverjarnir hafi verið mjög dónalegir við sendiherra Bretlands í Kína meðan á heimsókninni stóð. Samsinnir D'Orsi drottningunni og bætir við að þeir hafi jafnframt verið „ódiplómatískir“.

Spurður um málið sagðist talsmaður Buckingham-hallar ekki ætla að tjá sig um einkasamtöl  drottningarinnar. Lagði hann þó áherslu á að heimsókn forseta Kína hefði verið mjög vel heppnuð.

Kínversk yfirvöld hafa ekki tjáð sig um málið en umfjöllun BBC World um það í landinu hefur verið ritskoðuð og datt stöðin einfaldlega út á meðan sagt var frá upptökunni.

Í gær var sagt frá því að upptaka hefði náðst af David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, þar sem hann sagði við drottninguna að Afganistan og Nígería væru „stórkostlega spillt“ ríki.

Fyrri frétt mbl.is: Cameron talar um „stórkostlega spillt ríki“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert