Tillerson hvetur til diplómatískra leiða

Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP

Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, krefst þess að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, leysi ágreining ríkisins við Norður-Kóreu með diplómatískum leiðum.

„Þannig verður það þar til „fyrsta sprengjan fellur,““ segir Tillerson í samtali við CNN og BBC greinir frá. Hann segir jafnframt að þær refsiaðgerðir og háttvísi sem ríki heimsins hafi sammælst um að beita Norður-Kóreu hafi sýnt áður óséða samstöðu í alþjóðasamfélaginu.   

Trump sagði í síðasta mánuði að Tillerson ætti ekki að sóa tíma sínum í að leita eftir að ræða við Kim Jong-un.

Andað hefur köldu milli Tillerson og Trump en fram kom á dög­un­um að Til­ler­son hefði kallað Trump hálf­vita. Tals­menn Til­ler­sons hafa ít­rekað vísað slík­um frétt­um á bug og það gerði Tillerson einnig sjálfur í viðtali sínu við CNN í dag. „Ég ætla ekki að fást við það lítilvæga mál,“ segir hann.

Sjötta kjarnorkutilraun Norður-Kóreu stendur nú yfir og hefur tveimur eldflaugum verið skotið yfir Japan. Tillerson segir að Bandaríkin séu í „beinu sambandi“ við yfirvöld í Norður-Kóreu og verið sé að kanna möguleikann á viðræðum um stöðu mála.

Trump hefur, líkt og áður kom fram, hvatt Tillerson til að eyða ekki orku sinni í „eldflaugamanninn“ eins og hann kallar Kim Jong-un.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert