Pompeo formlega orðinn utanríkisráðherra

Mike Pompeo, fyrrverandi yf­ir­maður banda­rísku leyniþjón­ust­unn­ar, gegnir nú embætti utanríkisráðherra …
Mike Pompeo, fyrrverandi yf­ir­maður banda­rísku leyniþjón­ust­unn­ar, gegnir nú embætti utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP

Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti í dag tilnefningu Donalds Trumps Bandaríkjaforseta á Mike Pompeo í embætti utanríkisráðherra. Töluverð togstreita hefur verið um tilnefninguna meðal þingmanna.

Tilnefning Pompeo í embætti utanríkisráðherra var samþykkt með 57 atkvæðum gegn 42 á öldungadeildarþinginu. Repúblikanar hafa meirihluta á þinginu en auk þeirra greiddu sex þingmenn demókrata atkvæði með tilnefningunni.

Þingmenn demókrata hafa meðal annars sakað Pompeo, sem er fyrrverandi yf­ir­maður banda­rísku leyniþjón­ust­unn­ar, um að vera hliðhollur stríðsrekstri og ala á fordómum gegn múslimum og samkynhneigðum.

Pompeo er annar í röðinni til að gegna embættinu í forsetatíð Trumps, en forveri hans í starfi, Rex Tillerson, var rekinn af forsetanum í mars.

Tillerson frétti af brottrekstri sínum á Twitter en Trump sagði að skiptar skoðanir þeirra á kjarn­orku­vopna­sam­komu­lagi við Íran hafi meðal annars haft áhrif á brottreksturinn.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert