„Sjá mikið eftir því“ ef samkomulaginu verður rift

Rouhani segir að Bandaríkin muni sjá eftir því verði samkomulaginu …
Rouhani segir að Bandaríkin muni sjá eftir því verði samkomulaginu rift. AFP

Hassan Rouhani, forseti Íran, segir að ef Bandaríkin segi sig frá kjarnorkusamkomulaginu við Íran, sem var undirritað árið 2015, muni þeir „sjá mikið eftir því.“ Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hyggst á næstu dögum taka ákvörðun um framtíð samkomulagsins, en það fól í sér að Íranar hægðu á kjarnorkutilraunum sínum og minnkuðu birgðir af auðguðu úrani, en í staðinn yrði refsiaðgerðum og viðskiptaþvingunum gegn þeim aflétt. AFP-fréttastofan greinir frá.

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, fullyrti það hins vegar í síðustu viku að stjórnvöld þar í landi hefðu komist yfir gögn sem sýndu fram á að, Íranar hafi verið að þróa kjarnavopn frá árinu 2003 og hafi logið að umheiminum í aðdraganda samkomulagsins. Írönsk stjórnvöld hafa hins vegar hafnað þessum ásökunum.

„Ef Bandaríkin segja sig frá kjarnorkusamkomulaginu, þá munið þið fljótlega sjá mikið eftir því, meira en nokkru öðru í sögunni,“ sagði Rouhani í ræðu sem sjónvarpað var í Íran í morgun. Hann fór þó ekki út í það hvernig Íranar myndu bregðast við.

Í lok apríl var haft eftir John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafa Trump, að forsetinn hefði enn ekki tekið ákvörðun varðandi samkomulagið, hvort Bandaríkin verði áfram aðilar eða segi skilið við það. Trump væri að skoða málið og íhuga tillögur sem Emmanuel Macron, forseti Frakklands lagði fram í heimsókn hans til Bandaríkjanna á dögunum. Þar er vísað til hug­mynda um að í stað þess að rifta kjarn­orku­sam­komu­lag­inu verði bætt við atriðum til þess að koma til móts við gagn­rýni Trumps á það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert