Gretu Thunberg gert að mæta fyrir dóm

Thunberg lendir reglulega í kasti við lögin. Á þessari mynd …
Thunberg lendir reglulega í kasti við lögin. Á þessari mynd má sjá lögregluna í Hollandi bera hana í burtu af mótmælum. AFP/Ramon Van Flymen

Umhverfissinninn Greta Thunberg hefur verið ákærð af sænskum saksóknurum fyrir borgaralega óhlýðni eftir að hafa hindrað aðgang að sænska þinginu, þvert á skipanir lögreglu, í mars.

Er henni gert að mæta fyrir dómstóla 8. maí, en hún hafnar sök.

Thunberg og aðrir aðgerðasinnar hindruðu för fólks í gegnum aðalinngang sænska þingsins í mótmælum sem stóðu yfir í nokkra daga í mars. Þingmenn komust inn um hliðardyr svo að þingið gæti starfað áfram.

Hefur áður verið sektuð

Í mótmælunum þurfti að bera Thunberg í burtu af lögreglunni þann 12. mars og 14. mars þar sem hún neitaði að fylgja skipunum lögreglu og færa sig sjálfviljug.

Thunberg hefur tvisvar áður verið sektuð af sænskum dómstólum fyrir borgaralega óhlýðni. 

Þá var hún hand­tek­in tvisvar af hol­lensku lög­regl­unni í byrjun mánaðar þegar hóp­ur mót­mæl­enda lokaði stofn­braut í Haag til þess að mót­mæla jarðefna­eldsneyt­is­styrkj­um. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka